FRÉTT MIÐLUN 23. JANÚAR 2015

Á árinu 2012 komu út hér á landi 1.355 bækur á pappír. Að frátöldum árlegum sveiflum hefur fjöldi útgefinna bóka að mestu leyti staðið í stað frá því um aldamótin síðustu. Hins vegar hefur útgefnum bókum fækkað nokkuð síðan á seinni helmingi tíunda áratugar síðustu aldar, en þá hafði fjöldi útgefinna bóka aukist nær samfellt frá árinu 1975 (sjá mynd 1).

 

Fjöldi útgefinna bóka á á hverja 1.000 íbúa hefur farið lækkandi frá því um aldamótin síðustu eftir nær samfellda aukningu frá því um miðjan áttunda áratug síðustu aldar (sjá mynd 2). Árið 2012 komu út 4,2 bækur á hverja 1.000 íbúa, sem er nær tveimur færri en árið 1999, eða álíka og útgáfan var á fyrri hluta tíunda áratugarins.

 


Hafa ber í huga að tölur um bókaútgáfuna á árunum 1975– 2000 og fyrir síðari ár eru ekki fyllilega sambærilegar. Á  fyrra skeiðinu miðast tölurnar við fjölda binda, en á því síðara við fjölda titla. Tölur um útgefnar bækur fyrir aldamótin eru því eðlilega nokkru hærri en tölur fyrir árin 1999– 2012.

Langflestar þeirra bóka sem gefnar eru út ár hvert eru íslensk höfundarverk, rituð á íslensku, eða sjö af hverjum tíu útgáfum. Hlutur þýðinga hefur þó aukist talsvert hin seinni ár, en hlutfall þýðinga árið 2012 var tæplega 28 af hundraði (sjá mynd 3). Þýðingar úr ensku eru langsamlega flestar. Ríflega sex af hverjum tíu þýddum bókum sem út komu árið 2012 voru þýðingar úr ensku.

Árið 2012 skiptist bókaútgáfan þannig að af hverjum 100 útgefnum titlum voru rit almenns efnis 76, fyrir börn og unglinga 19, og fimm kennslu- og námsbækur (sjá mynd 4). Hlutur bóka fyrir börn og ungmenni hefur aukist nær samfellt frá 1999, eftir nokkra ládeyðu næstu árin þar á undan.


Tölur um útgefnar bækur eru teknar saman árlega úr rafrænni Íslenskri útgáfuskrá Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og birtar á vef Hagstofunnar. Upplýsingar Íslenskrar útgáfuskrár eru byggðar á upplýsingum úr bókasafnskerfinu Gegni og á skylduskilum útgefenda rita til Landsbókasafns – Háskólabókasafns. Skráin er uppfærð reglulega og í henni birtist það efni sem til hefur náðst. Niðurstöður talningar úr grunninum eru því ekki samhljóða frá einum tíma til annars. Hér er miðað við stöðu skráningar í skrána þann 14. janúar 2015. Tölur um fjölda útgefinna bóka hin síðustu ára eiga eftir að hækka með frekari innheimtu skylduskila frá útgefendum. Upplýsingar Íslenskrar útgáfuskrár taka aðeins til bóka útgefinna á pappír og hljóðbóka. Tölulegar upplýsingar um útgáfu bóka á stafrænu formi eru ekki tiltækar.

Tölulegur samanburður bókaútgáfunnar við fyrri ár er bundinn nokkrum annmörkum. Kemur það til af því að skráningu útgefinna rita var breytt samfara því sem Íslensk útgáfuskrá leysti Íslenska bókaskrá af hólmi fyrir fáum árum. Íslensk útgáfuskrá nær aðeins aftur til ársins 1999 og miðaðist skráning rita við titla í stað binda eins og í fyrri skrá. Á vef Hagstofunnar eru birtar eldri tölur um bókaútgáfuna samkvæmt Íslenskri bókaskrá, eða frá 1965 fram til loka árs 2000.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.