FRÉTT MIÐLUN 02. MARS 2021

Söluandvirði hljóðrita frá útgefendum og dreifendum jókst um 18% á milli áranna 2018 og 2019. Það er fjórða árið í röð sem söluandvirðið hækkar að raunvirði eftir nær samfelldan samdrátt frá því um aldamót. Söluaukninguna má alfarið rekja til greiðslna á stafrænum skrám í streymi á sama tíma og andvirði af sölu geisladiska og hljómplata hefur dregist saman ár frá ári. Nærri lætur að 90% söluandvirðisins árið 2019 stafi af greiðslum fyrir hlustun á tónlistarveitur. Samdráttur í sölu geisladiska og hljómplata kemur einnig fram í sífellt færri útgefnum titlum diska og platna.

Heildarverðmæti seldra geisladiska, hljómplata og stafrænna skráa árið 2019 nam 802 milljónum króna, þar af voru greiðslur fyrir stafrænar skrár 713 milljónir króna en sala á diskum og plötum 88 milljónir. Þrátt fyrir talsverða aukningu í sölu hljóðrita undanfarin þrjú ár, sem alfarið er vegna greiðsla til tónlistarveitna, var söluverðmætið reiknað á föstu verðlagi um helmingi minna árið 2019 en þegar best lét árið 1999 (sjá mynd 1).

Samkvæmt upplagseftirliti Félags hljómplötuútgefenda nam áætluð sala tónlistarveitunnar Spotify til notenda hér á landi tæpum 700 milljónum króna árið 2019. Það jafngildir því að 87% af heildarsöluverðmæti hljóðrita og allt að 98% af streymdri tónlist hafi farið í gegnum tónlistarveituna eða samanlagt fast að 90% tónlistarsölunnar.

Útgáfa og sala hljómdiska og -platna hefur dregist nær samfellt saman um langt árabil. Útgáfum hljóðrita (á geisladiskum, plötum og snældum) hefur fækkað sjöfalt frá árinu 2006 til ársins 2019 eða úr 301 titli í 41 (sjá mynd 2).

Samdráttur í sölu eintaka frá útgefendum og dreifendum hefur verið enn meiri. Frá aldamótum lætur nærri að seldum eintökum hafi fækkað átjánfalt. Árið 2019 seldust hér á landi 48 þúsund eintök geisladiska og hljómplatna samanborið við 868 þúsund eintök árið 1999 er fjöldi seldra eintaka náði hámarki (sjá mynd 3). Seldum eintökum á íbúa hefur fækkað úr 3,1 árið 1999 í 0,1 árið 2019.

Ört vaxandi tekjur af streymi tónlistar hin síðustu ár vegur að litlu leyti upp á móti þeim samdrætti sem orðið hefur í tekjum af sölu tónlistar frá því um síðustu aldamót. Árið 2019 nam söluverðmæti hljóðrita frá dreifendum 802 milljónum króna samanborið við 1.586 milljónir króna árið 1999 reiknað á föstu verðlagi.

Um gögnin
Upplýsingar um dreifingu og sölu hljóðrita eru fengar úr árlegu upplagseftirliti Félags hljómplötuframleiðenda sem nær til allra helstu innlendra framleiðenda og dreifenda geisladiska og hljómplatna. Salan er miðuð við heilsöluverð án virðisaukaskatts. Tekjur Spotify eru áætlaðar.

Tölur um útgefin hljóðrit eru teknar saman úr Íslenskri útgáfuskrá Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og birtar á vef Hagstofunnar. Upplýsingar Íslenskrar útgáfuskrár eru byggðar á skylduskilum útgefenda til Landsbókasafns – Háskólabókasafns. Skráin er uppfærð reglulega og í henni birtast þær útgáfur sem útgefendur hafa staðið skil á til safnsins.

Niðurstöður talningar úr grunninum eru því ekki samhljóða frá einum tíma til annars. Hér er miðað við stöðu skráningar þann 10. febrúar 2021. Tölur um fjölda útgefinna hljóðrita hin síðustu ár eiga eftir að hækka frá því sem hér er miðað við með frekari innheimtu skylduskila frá útgefendum. Upplýsingar Íslenskrar útgáfuskrár taka aðeins til hljóðrita útgefinna á efnislegu formi (á diskum, hljómplötum og snældum). Tölulegar upplýsingar um útgáfu hljóðrita á stafrænu formi eru ekki tiltækar.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1051 , netfang Ragnar.Karlsson@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.