FRÉTT MIÐLUN 27. OKTÓBER 2011

Á síðasta ári voru útgefin hér á landi tvö dagblöð og 21 vikublað. Heildarútbreiðsla dagblaða nam 130 þúsund eintökum og vikublaða 231 þúsund. Útbreiðsla dagblaðanna skrapp saman um átta þúsund eintök frá árinu 2009. Samanlögð útbreiðsla vikublaða jókst, hins vegar, um 161 þúsund eintök á milli ára, úr 70 þúsund eintökum í 231 þúsund eintök.

Frá 2008 hefur dagblöðum fækkað úr fimm í tvö. Dagblöðin hafa ekki verið færri síðan á öðrum áratug síðustu aldar. Vikublöðum hefur nokkuð fækkað á síðustu árum, eða úr 25 þegar best hefur látið í 21 sl. tvö ár. Þrjú vikublaðanna sem gefin voru út í fyrra voru landsblöð en blöð sem hafa staðbundna efnisskírskotun og dreifingu, svo nefnd landshluta- og staðarblöð, voru 18 talsins.

 

Á síðasta ári dróst útbreiðsla dagblaða saman um átta þúsund eintök, eða úr 138 þúsund eintökum í 130 þúsund. Frá árinu 2007 hefur útbreiðsla dagblaða skroppið saman um 153 þúsund eintök, eða um ríflega helming, eftir að hafa aukist stöðugt allt frá árinu 2001 með tilkomu frídagblaða.

Útbreiðsla vikublaða jókst stórlega á síðasta ári. Samanlögð útbreiðsla vikublaða í fyrra var 231 þúsund eintök að jafnaði, sem er meira en þreföldun frá 2009. Ástæðu þessa má rekja til fjölgunar vikublaða sem dreift er á landsvísu og tilkomu tveggja fríblaða sem dreift er í stóru upplagi.

 

Samanlagðar tekjur fréttablaða af blaðasölu og birtingu auglýsinga námu ríflega sex milljörðum króna á síðasta ári. Eftir samfelldan samdrátt í tekjum fréttablaða frá árinu 2006, jukust tekjur blaða milli áranna 2009 og 2010 um hálfan milljarð króna.

Hlutur auglýsingatekna er æ stærri hluti af tekjum fréttablaða sem rekja má að stórum hluta til vaxtar og viðgangs fríblaða og aukinnar samkeppni. Í fyrra voru auglýsingatekjur um það bil þrír fjórðu hluti tekna fréttablaða samanborið við 63% árið 2000 og 53% árið 1995.

 

Um tölurnar
Árleg gagnasöfnun Hagstofunnar um útgáfu fréttablaða tekur til dagblaða, vikublaða hálfsmánaðarblaða og mánaðarblaða. Tölur eru fengnar milliliðalaust frá blaðaútgefendum. Í undantekningartilfellum er útbreiðsla einstakra blaða metin.

Dagblöð eru skilgreind sem fréttablöð útgefin 4 sinnum og oftar í viku og vikublöð sem fréttablöð útgefin 1–3 sinnum í viku. Tölurnar taka bæði til seldra blaða og fríblaða.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.