FRÉTT MIÐLUN 09. FEBRÚAR 2018

Frá árinu 1949 til ársloka 2017 hefur 191 íslensk leikin kvikmynd í fullri lengd verið frumsýnd hér á landi. Karlar hafa leikstýrt langflestum myndanna eða níu af hverjum tíu. Flestar myndanna flokkast sem drama- og gamanmyndir. Um ein af hverjum tíu kvikmyndum eru barna- og fjölskyldumyndir.

Fyrsta íslenska leikna kvikmyndin í fullri lengd var frumsýnd árið 1949. Það var kvikmyndin Milli fjalls og fjöru í leikstjórn Lofts Guðmundssonar. Næsta áratuginn voru frumsýndar fimm leiknar íslenskar kvikmyndir í fullri lengd. Eftir það dró úr framleiðslu langra leikinna mynda hér á landi. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar voru aðeins frumsýndar tvær innlendar myndir í fullri lengd, ein á hvorum áratug. Frá árinu 1980 að telja hefur árvisst verið frumsýnd innlend leikin kvikmynd í fullri lengd, tíðast fleiri en ein eða tvær hvert ár. Flestar voru myndirnar árið 2011, en þá voru frumsýndar myndir tíu talsins. Frá 1949 til loka árs 2017 hefur 191 íslensk leikin kvikmynd í fullri lengd verið frumsýnd, eða fast að þrjár myndir að jafnaði á ári (sjá töflu 1).

Tafla 1. Frumsýndar langar leiknar íslenskar kvikmyndir 1949-2017          
  1949-1979 1980-1989 1990-1999 2000-2009 2010-2017   1949-2017 1980-2017
Fjöldi mynda 8 28 33 56 66   191 183
Árlegt meðaltal . 2,8 3,3 5,6 8,3   2,8 4,8
                 
Myndir eftir kyni leikstjóra                
Karlar 8 25 26 53 65   177 169
Konur 5 7 9 4   25 25
  8 30 33 62 69   202 194
Myndir byggðar á bókmenntaverki 6 7 5 10 12   40 34
                 
Barna- og fjölskyldumyndir 3 2 5 6 7   23 20
                 
Samframleiddar myndir 1 4 20 25 26   76 75
                 
Frásagnarsnið                
Drama 5 14 26 36 40   121 116
Grín 1 11 13 28 28   81 80
Hasar, spenna 1 6 3 6 14   30 29
Glæpir 2 7   9 9
Ævintýri 2 2 4   8 6
Fantasía 1 1   2
Hryllingur 1 2   3 3
Söngvaseiður 1 1   2 2
Vísindaskáldskapur 1   1 1

Skýring: Samtala um fjölda leikstjóra og frásagnarsnið þarf ekki að stemma við fjölda mynda þar sem fleiri en einn leikstjóri er að sumum myndanna og frásagnarsnið kvikmynda er tíðast fleira en eitt.

Af þeim kvikmyndum sem frumsýndar hafa verið frá því um miðbik síðustu aldar hafa konur komið að leikstjórn 25 þeirra á móti 177 körlum, eða um ein kona á móti hverjum níu körlum (sjá mynd 1). Samanlögð tala leikstjóra er ívið hærri en tala mynda og stafar það af því að í nokkrum tilfellum eru fleiri en einn leikstjóri að mynd.


Öndvert við það sem ætla mætti hefur hlutur kvenna sem leikstjórar langra leikinna íslenskra mynda rýrnað síðustu ár. Hlutur kvenna í hópi leikstjóra var hæstur 1990-1999, eða 21 af hundraði, samanborið við sex af hundraði á árabilinu 2010-2017 eins og lesa má úr mynd 1.

Kvikmyndir eru ekki aðeins sjálfstætt listform heldur styðjast þær við eigin frásagnarmáta og viðfangsefni. Þetta má að nokkru ráða af því að einungis tvær af hverjum tíu innlendum kvikmyndum sem frumsýndar hafa verið frá 1949 eru endurgerðir eða byggðar á bókmenntaverki (sjá mynd 2).

Ein af hverjum tíu frumsýndum innlendum kvikmyndum fullri lengd hefur verið ætlað að höfða til barna og fjölskyldna. Hlutfall mynda sem teljast til barna- og fjölskyldumynda náði hæst á árunum 1990-1999, eða 15 af hundraði (sjá mynd 3).

 

Lang algengasta frásagnarsnið (eða það sem nefnt er genre á ensku og frönsku) innlendra kvikmynda er drama. Rétt um tvær af hverjum þremur myndum flokkast sem slíkar. Gamanmyndir koma því næst, eða fjórar af hverjum tíu myndum og hasar- og spennumyndir í um 16 af hundraði. Önnur frásagnarsnið eru fátíðari (sjá töflu 2).

Tafla 2. Frásagnarsnið íslenskra langra leikinna kvikmynda frumsýndra 1949-2017, %        
  1949-1979 1980-1989 1990-1999 2000-2009 2010-2017   1949-2017 1980-2017
Drama 62,5 50,0 78,8 64,3 60,6   63,4 63,4
Grín 12,5 39,3 39,4 50,0 42,4   42,4 43,7
Hasar, spenna 12,5 21,4 9,1 10,7 21,2   15,7 15,8
Glæpir 3,6 10,6   4,7 4,9
Ævintýri 25,0 6,1 7,1   4,2 3,3
Hryllingur 1,8 3,0   1,6 1,6
Söngvaseiður 1,8 1,5   1,0 1,1
Fantasía 3,6 1,5   1,1
Vísindaskáldskapur 1,5   0,5 0,5

Skýring: Samtala um frásagnarsnið þarf ekki að stemma við fjölda mynda þar sem frásagnarsnið kvikmynda er tíðast fleira en eitt.

Af þeirri 191 innlendu leiknu kvikmynd í fullri lengd sem frumsýnd hefur verið frá 1949 hafa 76, eða fjórar af hverjum tíu, verið framleiddar í samvinnu og samstarfi við útlenda framleiðendur (sjá mynd 4). Erlendir meðframleiðendur þessara 76 mynda komu frá 26 löndum, flestir frá Norðurlöndum. Lengi vel var fátítt að íslenskar kvikmyndir væru framleiddar í samstarfi við erlenda aðila, en slíkt færðist í aukana undir lok síðustu aldar. Á tíunda áratugnum voru sex af hverjum tíu frumsýndum myndum framleiddar í samstarfi við erlenda framleiðendur. Síðan hefur nokkuð dregið úr samframleiðslu íslenskra kvikmynda, en 39 af hundraði mynda frumsýndra árin 2010-2017 voru framleiddar með aðkomu erlendra framleiðenda. Hlutfallsleg fækkun samframleiddra mynda kann að nokkru að stafa af því að tæknibreytingar í kvikmyndagerð hafa gert kvikmyndagerðarmönnum auðveldara um vik við framleiðslu fullburðugra kvikmynda með takmarkaðri fjármunum en þeim var áður unnt.

Mest er um að þýskir (28 myndir) og danskir (22 myndir) framleiðendur komi að samframleiðslu íslenskra kvikmynda. Því næst koma norskir framleiðendur (19 myndir), þá breskir (16 myndir), sænskir (14 myndir) og franskir (10 myndir). Aðkoma framleiðenda frá öðrum löndum er fátíðari.

Frá árinu 1967 hafa íslenskir kvikmyndaframleiðendur einnig komið að framleiðslu 35 erlendra leikinna kvikmynda í fullri lengd í samstarfi framleiðendur frá 25 löndum. Algengast þar er samstarf við bandaríska framleiðendur (11 myndir) og danska (9 myndir). Íslenskir leikstjórar hafa leikstýrt sjö þessara mynda.

Um gögnin
Upplýsingar um langar leiknar íslenskar kvikmyndir eru byggðar á flokkun Kvikmyndastofnunar Íslands (Íslenskar kvikmyndir), European Audiovisual Observatory (Lumiere Data Base) og Internet Movie Database.
Með langri leikinni kvikmynd er átt við myndir sem taka minnst eina klukkustund í sýningu. Eðli málsins samkvæmt eru sjónvarpsmyndir og heimildakvikmyndir því ekki meðtaldar.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1051 , netfang Ragnar.Karlsson@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.