Gestum kvikmyndahúsa fækkaði um 180.000 á milli áranna 2019 og 2018. Aðsókn að almennum sýningum leikinna kvikmynda í fullri lengd var 1.246.000 á þar síðasta ári samanborið við 1.427.000 árið áður. Það jafngildir um 13% fækkun. Gestir kvikmyndahúsa hafa ekki verið færri á þeim tíma sem samfelldar tölur um aðsókn að kvikmyndahúsum hafa verið teknar saman (sjá mynd).

Gestir kvikmyndahúsa á höfuðborgarsvæði voru 1.066.000 árið 2019 eða um 161.000 færri en árið á undan. Á sama tíma nam aðsókn að kvikmyndasýningum annars staðar á landinu 180.000 eða hátt í 20.000 fækkun frá fyrra ári.

Aðsóknin árið 2019 jafngildir því að hver landsmaður hafi farið á almenna kvikmyndasýningu ríflega þrisvar sinnum á árinu. Aðsókn á íbúa var mest á höfuðborgarsvæði eða 4,6 samanborið við um 1,4 utan höfuðborgarsvæðisins.

Andvirði seldra aðgöngumiða á landinu öllu 2019 nam 1.553 milljónum króna, samanborið við 1.772 milljónir króna árið á undan. Hlutdeild innlendra kvikmynda í andvirði greiddra miða nam 4%, samanborið við um 13% árið áður.

Hlutur innlendra kvikmynda í aðsókn var 3,5%, eða 43.000 þúsund sýningargestir, sem er fækkun upp á 116.000 gesti frá árinu 2018. Bandarískar kvikmyndir höfðu langsamlega mesta hlutdeild á liðnu ári, hvort heldur er miðað við aðsókn eða tekjur af miðasölu eða 84%.

Frumsýndar kvikmyndir í fullri lengd árið 2019 voru 180 talsins, þar af voru 94 bandarískar, átta íslenskar, 12 norrænar, 18 breskar, 33 evrópskar aðrar og 15 annars staðar frá.

Á síðasta ári voru starfrækt 15 almenn kvikmyndahús með 40 sýningarsali á níu stöðum á landinu. Sætaframboð var 6.551 og sýningar á viku losuðu liðlega þúsund að meðaltali.

Hagstofa Íslands tekur árlega saman upplýsingar um kvikmyndasýningar og starfsemi kvikmyndahúsa. Upplýsingar eru fengnar frá rekstraraðilum kvikmyndahúsa og úr gagnagrunni Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) um kvikmyndasýningar.

Talnaefni