Heildaraðsókn að kvikmyndasýningum á landinu öllu árið 2008 nam laust innan við 1,6 milljón gestum, eða um sjö af hundraði fleiri en árið áður. Það jafngildir því að hver landsmaður hafi fimm sinnum sótt kvikmyndasýningar á árinu. Aðsókn að kvikmyndum hefur ekki verið meiri síðan árið 2002. Kvikmyndahúsagestum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um átta af hundraði milli áranna 2008 og 2007, en lítillegur samdráttur varð í aðsókn utan höfuðborgarsvæðisins. Andvirði seldra aðgöngumiða á landinu öllu nam ríflega 1.270 milljónum króna á síðasta ári.
Teknar voru til almennra sýninga 166 leiknar kvikmyndir í fullri lengd á árinu. Af þeim voru 134 bandarískar, eða 81 prósent, og 13 breskar, eða átta prósent. Aðeins ein norræn kvikmynd var frumsýnd í kvikmyndahúsum hér á árinu auk sjö íslenskra. Fleiri íslenskar langar leiknar myndir hafa ekki verið frumsýndar síðan árið 2002, en það ár voru frumsýndar sjö íslenskrar kvikmyndir.
Markaðshlutdeild íslenskra kvikmynda var átta af hundraði miðað við aðsókn, en 10,5 prósent miðað við andvirði greiddra aðgöngumiða. Um er að ræða talsverða aukningu í markaðshlutdeild íslenskra kvikmynda og sýninga þeirra frá næstliðnum árum. Hlutdeild bandarískra kvikmynda var langsamlega mest á liðnu ári hvort heldur er miðað við aðsókn og tekjur af miðasölu, eða ríflega 80 af hundraði.
Á síðasta ári voru starfrækt 18 almenn kvikmyndahús með 41 sýningarsali á 13 stöðum á landinu. Sætaframboð var 6.446 og sýningar á viku að meðaltali 819. Kvikmyndahúsum utan höfuðborgarsvæðis fækkaði um tvö frá fyrra ári.
Hagstofa Íslands tekur árlega saman upplýsingar um kvikmyndasýningar og starfsemi kvikmyndahúsa. Upplýsingar eru fengnar frá rekstraraðilum kvikmyndahúsa og úr gagnagrunni Samtaka myndrétthafa á Íslandi – SMÁÍS um kvikmyndasýningar.
Talnaefni