FRÉTT MIÐLUN 19. SEPTEMBER 2013

Aðsókn að almennum sýningum kvikmynda leikinna að fullri lengd á landinu öllu árið 2012 nam ríflega 1,4 milljónum gesta, eða þremur af hundraði færri en árið áður. Það jafngildir því að hver landsmaður hafi 4,5 sinnum sótt kvikmyndasýningar á árinu. Aðsókn að kvikmyndum hefur dregist saman frá árinu 2009 um tólf af hundraði (sjá mynd). Kvikmyndahúsagestum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði lítillega á milli áranna 2012 og 2011, en utan höfuðborgarsvæðisins fækkaði sýningargestum kvikmyndahúsa um 16 prósent. Andvirði seldra aðgöngumiða á landinu öllu nam 1.525 milljónum króna á síðasta ári.

 

Sýndar voru á almennum sýningum 218 leiknar kvikmyndir í fullri lengd á árinu. Af þeim var ríflega helmingurinn bandarískar myndir. Breskar, franskar, þýskar og norrænar myndir voru 29 prósent, eða sjö af hundraði frá landi/svæði. Frumsýndar leiknar myndir í fullri lengd voru 202 talsins, þar af ríflega helmingurinn bandarískar.

Á árinu voru frumsýndar níu leiknar íslenskar kvikmyndir í fullri lengd, þar af voru átta teknar til almennra sýninga í kvikmyndahúsum. Markaðshlutdeild íslenskra kvikmynda var níu af hundraði miðað við aðsókn, en 11 prósent miðað við andvirði greiddra aðgöngumiða. Sýningargestum á íslenskrar kvikmyndir fjölgaði um þrjá af hundraði í fyrra frá árinu á undan. Aðsókn að íslenskum myndum hefur ekki verið meiri síðan árið 2002. Fjöldi áhorfenda á hverja íslenska mynd sem sýnd var í kvikmyndahúsum á síðasta ári var ríflega 13.000.

Hlutdeild bandarískra kvikmynda var langsamlega mest á liðnu ári hvort heldur er miðað við aðsókn eða tekjur af miðasölu, eða 71 prósent og 82 prósent.

Á síðasta ári voru starfrækt 15 almenn kvikmyndahús með 41 sýningarsal á 10 stöðum á landinu. Sætaframboð var 6.942 og sýningar á viku að meðaltali 1.070.

Hagstofa Íslands tekur árlega saman upplýsingar um kvikmyndasýningar og starfsemi kvikmyndahúsa. Upplýsingar eru fengnar frá rekstraraðilum kvikmyndahúsa og úr gagnagrunni Samtaka myndrétthafa á Íslandi – SMÁÍS um kvikmyndasýningar. Tölurnar ná ekki til kvikmyndahátíða og sýninga á heimildamyndum og stuttmyndum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.