FRÉTT MIÐLUN 17. DESEMBER 2010

Yfir 1.000 titlar leigu- og sölumynda voru gefnir út hér á landi á síðasta ári á vegum stærstu útgefenda mynddiska og myndbanda. Þar af voru útgefnar 574 sölumyndir og 490 leigumyndir. Fjöldi útgefinna sölumynda jókst umtalsvert á árabilinu 1997-2004, en fjöldi útgefinna mynda hefur síðan að mestu staðið í stað. Frá 2004 og allt fram undir síðustu ár gætti umtalsverðs samdráttar í útgáfu leigumynda, er titlum fjölgaði lítillega á ný (sjá mynd).

Langstærstur hluti leigu- og sölumynda sem gefnar eru út ár hvert eru bandarískar, eða yfir átta af hverjum tíu myndum. Á síðustu árum hefur uppruni útgefinna mynda smám saman orðið fjölbreyttari, einkum með auknum fjölda útgefinna evrópskra og ekki síst íslenskra mynda.

Leigumyndir
Sala mynddiska og myndbanda til myndaleiga á síðasta ári nam um 45.000 eintökum, eða um 24.000 færri eintökum en 2008. Á undanförnum árum hefur seldum eintökum til myndaleiga farið ört fækkandi. Fækkunin er um 58.000 eintök frá því best lét árið 2001, en þá seldust ríflega 103.000 eintök. Fjöldi seldra eintaka til myndaleiga á síðasta ári var álíka mikill og árið 1993 (sjá mynd).

Fjöldi útleigðra myndbanda og diska á síðasta ári er áætlaður hátt í 1,8 milljón eintaka, að verðmæti um 880 milljónir króna að meðtöldum virðisaukaskatti. Frá 2001 hefur áætlaður fjöldi útleigðra mynddiska og myndbanda lækkað um 1,4 milljónir eintaka, eða úr 3,1 milljón leigðra eintaka. Miðað við áætlaða útleigu síðasta árs má gera ráð fyrir að hver einstaklingur hafi leigt sér mynd sex sinnum, eða helmingi sjaldnar en þegar mest lét árið 2001, er áætluð útleiga var 11 myndir á mann. Inni í tölum um útleigu er ekki leiga á myndum á vegum myndveita (Video-on-Demand) um síma og í sjónvarp.

Sölumyndir
Lengi vel var eitt helsta einkenni íslensks myndbanda- og mynddiskamarkaðar takmarkað gengi sölumynda í samanburði við leigumyndir. Þetta hefur breyst upp á síðkastið þar sem sala sölumynda hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár, þar til á síðasta ári er gætti lítillegs samdráttar í sölu mynda (sjá mynd).

Á síðasta ári nam sala sölumynda á vegum útgefenda ríflega 870.000 eintökum, eða um 38.000 færri en árið á undan, en þá seldust ríflega 900.000 eintök. Verðmæti seldra mynda á útgefendastigi á síðasta ári var 886 milljónir króna, sem jafngildir um 2,2 milljörðum króna í smásölu, að álögðum virðisaukaskatti.

Um tölurnar
Árleg gagnasöfnun Hagstofunnar um útgáfu, dreifingu og sölu mynddiska og myndbanda tekur til helstu útgefenda og dreifenda. Tölur eru fengnar með góðfúslegu samþykki þeirra. Mat á fjölda útleigðra mynda er byggt á áætlun Myndmarks, samtökum rétthafa útgefenda leigumynda og myndaleiga, Screen Digest, sem og ýmsum öðrum tiltækum gögnum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.