Eftir tekjuaukningu íslenskra fjölmiðla á árunum 2014-2017 lækkuðu fjölmiðlatekjur um 7% á árinu 2018 frá fyrra ári reiknað á föstu verðlagi. Samanlagðar tekjur fjölmiðla 2018 námu 26,3 milljörðum króna. Þar af voru tekjur af notendum 13,7 milljarðar og af auglýsingum ásamt kostun um 12,7 milljarðar. Helmingur tekna fjölmiðla féll til sjónvarps og tæpur fjórðungur til dagblaða og vikublaða. Hlutdeild hljóðvarps í tekjum fjölmiðla nam 14% og sitt hvor sjö prósentin féllu til tímarita og annarra blaða og vefmiðla.
Samanlagðar tekjur fjölmiðla árið 2018 hafa dregist saman um 18% frá því að þær voru hæstar árið 2007. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 varð umtalsverður samdráttur í tekjum fjölmiðla (þ.e. dag- og vikublaða og annarra blaða og tímarita, hljóðvarps og sjónvarps og vefmiðla). Frá 2007 til 2010 lækkuðu tekjur fjölmiðla um tæp 30% reiknað á verðlagi ársins 2018. Síðan þá hafa tekjurnar aðeins aukist lítillega. Mestu munar um samdrátt í auglýsingatekjum, en þær eru nú 30% lægri en þegar þær voru hæstar (2007) reiknað á föstu verðlagi. Á sama tíma hafa notendatekjur lækkað um 7% (sjá mynd 1).
Tekjusamdráttarins gætir á ólíkan hátt eftir miðlum. Hann hefur verið tilfinnanlega mestur í útgáfu blaða og tímarita sem rekja má til breyttrar fjölmiðlanotkunar með tilkomu nýrra og fjölbreyttari leiða við miðlun sjónvarps- og myndefnis, sífellt aukinnar netnotkunar almennings og greiðslu auglýsenda fyrir birtingu auglýsinga á erlendum vefmiðlum. Tekjur af útgáfu dag- og vikublaða hafa lækkað um 17% frá 2016 og hátt í helming frá því er tekjurnar voru hæstar árið 2006. Tekjur af útgáfu tímarita og annarra blaða jukust um 14% á milli áranna 2017 og 2018. Tekjur hljóðvarps jukust lítillega árið 2018 frá fyrra ári eða um eitt prósent. Á sama tíma lækkuðu tekjur sjónvarps um 9%. Tekjur vefmiðla jukust um 4% frá fyrra ári (sjá töflu 1).
Tafla 1. Tekjur eftir tegund fjölmiðla á föstu verðlagi 1997-2018 (vísitala 100=2018) | ||||||
Fjölmiðlar, alls | Dagblöð og vikublöð | Tímarit og önnur blöð | Hljóðvarp | Sjónvarp | Vefmiðlar | |
1997 | 71 | 125 | 80 | 64 | 57 | . |
1998 | 78 | 139 | 89 | 67 | 63 | 2 |
1999 | 87 | 151 | 117 | 75 | 69 | 6 |
2000 | 92 | 151 | 130 | 75 | 76 | 11 |
2001 | 92 | 138 | 135 | 73 | 83 | 8 |
2002 | 89 | 131 | 137 | 70 | 80 | 7 |
2003 | 89 | 137 | 112 | 74 | 79 | 10 |
2004 | 93 | 154 | 114 | 73 | 79 | 16 |
2005 | 108 | 188 | 133 | 80 | 89 | 16 |
2006 | 119 | 214 | 133 | 82 | 99 | 19 |
2007 | 122 | 207 | 141 | 91 | 104 | 24 |
2008 | 113 | 177 | 121 | 89 | 102 | 28 |
2009 | 90 | 110 | 105 | 79 | 91 | 26 |
2010 | 86 | 103 | 84 | 76 | 89 | 29 |
2011 | 91 | 114 | 83 | 75 | 92 | 50 |
2012 | 89 | 109 | 81 | 73 | 91 | 48 |
2013 | 89 | 109 | 84 | 71 | 91 | 52 |
2014 | 89 | 106 | 83 | 76 | 90 | 65 |
2015 | 94 | 105 | 85 | 80 | 95 | 88 |
2016 | 105 | 120 | 85 | 94 | 104 | 107 |
2017 | 107 | 115 | 88 | 99 | 109 | 96 |
2018 | 100 | 100 | 100 | 100 | 100 | 100 |
Tekjur í millj. kr. 2018 | 26.284 | 6.018 | 1.756 | 3.777 | 12.813 | 1.920 |
Breytt fjölmiðlaneysla almennings endurspeglast að nokkru í breyttri skiptingu á tekjum fjölmiðla eins og tafla 2 sýnir. Árið 2018 féll hátt í helmingur tekna fjölmiðla til sjónvarps í stað 39% árið 1997. Hlutur hljóðvarps hefur verið nær óbreyttur um langt árabil, eða 14% árið 2018 samanborðið við 13% 1997. Hlutdeild tímarita og annarra blaða var nándar nærri sú sama árið 2018 og 1997, eða 7% á móti 8%. Samdrátturinn hefur verið mestur í útgáfu dag- og vikublaða, en hlutdeild þeirra í tekjum fjölmiðla lækkaði úr 40% í 23%. Á sama tíma hefur hlutur vefmiðla hægt og bítandi aukist. Á árunum 2015 til 2018 runnu 7% fjölmiðlatekna til þeirra samanborið við eitt prósent á árabilinu 2000 til 2007.
Tafla 2. Hlutfallsleg skipting fjölmiðlatekna eftir tegund fjölmiðla 1997-2018 | |||||
Dagblöð og vikublöð | Tímarit og önnur blöð | Hljóðvarp | Sjónvarp | Vefmiðlar | |
1997 | 40 | 8 | 13 | 39 | 0 |
1998 | 41 | 8 | 12 | 39 | 0 |
1999 | 40 | 9 | 12 | 38 | 0 |
2000 | 38 | 9 | 12 | 40 | 1 |
2001 | 34 | 10 | 11 | 44 | 1 |
2002 | 34 | 10 | 11 | 44 | 1 |
2003 | 35 | 8 | 12 | 43 | 1 |
2004 | 38 | 8 | 11 | 41 | 1 |
2005 | 40 | 8 | 11 | 40 | 1 |
2006 | 41 | 7 | 10 | 41 | 1 |
2007 | 39 | 8 | 11 | 41 | 1 |
2008 | 36 | 7 | 11 | 44 | 2 |
2009 | 28 | 8 | 13 | 50 | 2 |
2010 | 27 | 7 | 13 | 51 | 2 |
2011 | 29 | 6 | 12 | 49 | 4 |
2012 | 28 | 6 | 12 | 50 | 4 |
2013 | 28 | 6 | 12 | 50 | 4 |
2014 | 27 | 6 | 12 | 49 | 5 |
2015 | 26 | 6 | 12 | 49 | 7 |
2016 | 26 | 5 | 13 | 48 | 7 |
2017 | 25 | 5 | 13 | 50 | 7 |
2018 | 23 | 7 | 14 | 49 | 7 |
Af hverjum hundrað krónum sem runnu til fjölmiðla árið 2018 féllu 24 til Ríkisútvarpsins á móti 76 til einkarekinna miðla. Af 26,3 milljarða króna tekjum fjölmiðla árið 2018 runnu 6,4 milljarðar til Ríkisútvarpsins á móti 19,9 milljörðum til fjölmiðla í einkaeigu. Hlutur Ríkisútvarpsins í heildartekjum fjölmiðla jókst um tvö prósent 2018 frá fyrra ári (sjá mynd 2).
Hlutdeild Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum fjölmiðla var óbreytt á milli áranna 2017 og 2018, eða 16%. Á sama tíma lækkaði hlutur Ríkisútvarpsins lítillega í samanlögðum auglýsingatekjum útvarps (hljóðvarps og sjónvarps) úr 41% í 40%. Hlutdeild Ríkisútvarpsins af auglýsingatekjum hljóðvarps lækkaði úr 34% í 32% og sjónvarps úr 48% í 46% (sjá mynd 3).
Af heildartekjum fjölmiðla árið 2018 runnu yfir átta af hverjum tíu krónum til fimm rekstraraðila að Ríkisútvarpinu meðtöldu. Níu af hverjum tíu krónum af notendatekjum féllu í hlut fimm stærstu aðila og ríflega sjö af hverjum tíu krónum af auglýsingatekjum (sjá töflu 3).
Tafla 3: Hlutdeild fimm stærstu aðila í tekjum fjölmiðla 2018, % | |||
Tekjur, alls | Notendagjöld | Auglýsingar | |
Allir fjölmiðlar* | |||
Fimm tekjuhæstu | 82 | 93 | 74 |
Aðrir | 18 | 7 | 26 |
Einkareknir fjölmiðlar | |||
Fimm tekjuhæstu | 80 | 92 | 67 |
Aðrir | 20 | 8 | 33 |
Skýring: Tölur vísa til hlutdeildar rekstraraðila. | |||
* Að Ríkisútvarpinu meðtöldu. |
Ef aðeins er miðað við einkarekna fjölmiðla þá runnu 80% af tekjum þeirra til fimm rekstraraðila, 92% notendagjalda og 67% auglýsingatekna.
Um gögnin
Upplýsingar um tekjur fjölmiðla eru fengnar frá rekstraraðilum fjölmiðla til Fjölmiðlanefndar frá 2011 (áður til Hagstofu Íslands) og úr ársreikningum. Í þeim tilfellum þegar upplýsingar frá rekstraaðilum skortir eru tekjurnar metnar út frá virðisaukaskatti og öðrum tiltækum upplýsingum. Fjölmiðlatekjur eru hér skilgreindar sem tekjur fjölmiðla af sölu til notenda (áskriftir, lausa- og þáttasala auk útvarpsgjalds sem lagt er á skattskylda einstaklinga og lögaðila sem ætlað er að standa straum af lögbundinni starfsemi Ríkisútvarpsins) og af birtingu og flutningi auglýsinga ásamt kostun. Upplýsingar um tekjur einstaka einkarekna fjölmiðla eru ekki gefnar upp.