Vinsamlegast athugið að þessi fréttatilkynning var leiðrétt 4. febrúar 2022 kl. 11:05 frá upprunalegri útgáfu. Villa í töflu eitt var leiðrétt.
Tekjur innlendra fjölmiðla af birtingu og flutningi auglýsinga árið 2020 drógust saman um 16% frá fyrra ári reiknað á föstu verðlagi. Sambærilegur samdráttur varð einnig í auglýsingagreiðslum til erlendra miðla á árinu. Án efa má rekja þetta til minni umsvifa á ýmsum sviðum samfara áhrifum kórónuveirufaraldursins. Tekjur innlendra fjölmiðla af notendum uxu lítillega á árinu eða um 2% en heildartekjurnar rýrnuðu um 6% frá fyrra ári. Samanlagðar tekjur fjölmiðla árið 2020 námu 25,1 milljarði króna. Þar af voru tekjur af notendum 15,8 milljarðar króna og af auglýsingum og kostun 9,3 milljarðar króna.
Fimm stærstu aðilar á fjölmiðlamarkaði tóku til sín 89% af samanlögðum tekjum fjölmiðla árið 2020. Til Ríkisútvarpsins féll fjórðungur teknanna. Greiðslur til erlendra aðila vegna auglýsingabirtinga drógust saman í fyrsta sinn á árinu eftir stöðuga aukningu um árabil. Gera má ráð fyrir að hátt í fjórar af hverjum tíu krónum sem varið var til greiðslna vegna birtinga auglýsinga hafi runnið til erlendra aðila.
Frá árinu 2015 hafa samanlagðar tekjur fjölmiðla1 rýrnað um 4%. Tekjur af auglýsingum og kostun hafa dregist saman um fjórðung á sama tíma og notendatekjur hafa vaxið um 14%. Samanlagðar tekjur af öðrum miðlum2 jukust um tæp 18% að raunvirði, þar af tvöfölduðust auglýsingatekjur og tekjur af sölu og leigu til notenda hækkuðu um þriðjung (sjá mynd 1).
Tekjuþróun mismunandi miðla hefur verið afar ólík. Á sama tíma og blöð og tímarit hafa búið við umtalsverðan tekjusamdrátt um langt árabil hafa aðrir miðlar ekki búið við viðhlítandi samdrátt. Tekjusamdrátt blaða- og tímaritaútgáfunnar má að miklu leyti rekja til breyttrar fjölmiðlanotkunar, aukinnar netnotkunar almennings og greiðslu auglýsenda fyrir birtingu auglýsinga í erlendum miðlum, einkum á netinu. Einnig hefur tilkoma nýrra og fjölbreyttari leiða við miðlun sjónvarps- og myndefnis haft sín áhrif. Nærri lætur að tekjusamdráttur dag- og vikublaða hafi numið hátt í 32% frá árinu 2015. Samsvarandi lækkun tekna tímarita var 28%. Tekjur annara miðla hafa ýmist hækkað eða staðið í stað.
Breytt fjölmiðlaneysla endurspeglast að nokkru í breyttri innbyrðis skiptingu fjölmiðlatekna eins og tafla 1 sýnir. Árið 2020 féllu 45% af fjölmiðlatekjum til sjónvarps og um 14% til dag- og vikublaða. Hlutdeild hljóðvarps í tekjum fjölmiðla nam 11%, vefmiðla 6% og tímarita 3%.
Af heildartekjum fjölmiðla árið 2020 runnu yfir 89% til fimm rekstraraðila að Ríkisútvarpinu meðtöldu. Hlutdeild sömu fyrirtækja í notendatekjum var um níu af hverjum tíu krónum og átta krónur af hverjum tíu krónum í auglýsingatekjum. Til Ríkisútvarpsins féll ríflega fjórðungur fjölmiðlateknanna, þar af tæpur þriðjungur notendagjaldanna og 17% auglýsingatekna. Hlutfall Ríkisútvarpsins í tekjum fjölmiðla hefur verið nær stöðugt um langt skeið. Þegar aðeins er miðað við einkarekna fjölmiðla þá runnu 87% teknanna til fimm rekstraraðila, 93% notendagjalda og 79% auglýsingatekna (sjá töflu 2).
Ástæða samdráttar í auglýsingatekjum fjölmiðla á undanförnum árum má án efa að stærstum hluta rekja til auglýsingabirtinga á erlendum vefsíðum og miðlum. Margvíslegum erfiðleikum er bundið að henda reiður á þetta þar sem flestir erlendir auglýsingamiðlar skila ekki yfirvöldum upplýsingum um greiðslur sem til þeirra renna frá íslenskum aðilum fyrir birtingu auglýsinga. Þegar horft er til greiðslna til erlendra aðila vegna kaupa á auglýsingum (að meðtöldum markaðsrannsóknum og skoðanakönnum) runnu 6,8 milljarðar króna til þeirra árið 2020 samanborið við 10,1 milljarð króna til innlendra miðla. Það samsvarar því að 40% af þeirri heildarupphæð sem varið var til auglýsingabirtinga og skyldrar starfsemi árið 2020 hafi farið til erlendra aðila (sjá töflu 3).
Eftir samfellda og stórstíga aukningu á hlutdeild erlendra aðila í auglýsingatekjum, eða svo langt aftur sem upplýsingar ná, drógust greiðslur til erlendra aðila saman um 16% árið 2020 eða samsvarandi og hlutfallslegur samdráttur auglýsingatekna innlendra miðla nam. Hafa verður hugfast að talsverður hluti þess fjár sem greiddur var til erlendra aðila er vegna auglýsinga sem beint er að erlendum neytendum, ekki síst í tengslum við ferðamennsku, og getur því ekki reiknast alfarið sem tekjutap innlendra fjölmiðla. Engar upplýsingar eru tiltækar um slíka skiptingu. Ósagt skal látið að hve miklu leyti samdráttur í greiðslum til erlendra aðila stafi af áhrifum frá kórónuveirufaraldrinum á árinu og samdrætti í komu ferðamanna til landsins. Ljóst er þó að samdráttur í greiðslum til erlendra aðila kom innlendum miðlum ekki til góða.
Umtalsverður hluti þeirra greiðslna sem varið er vegna birtingar auglýsinga í erlendum miðlum rennur til tveggja aðila, Facebook og Google (ásamt YouTube). Upplýsingar um greiðslukortaviðskipti vegna auglýsinga og skyldrar starfsemi sýna að um og yfir níu af hverjum tíu krónum hafa undanfarin ár runnið til þessara tveggja aðila. Sambærilegar upplýsingar um hlutdeild þessara aðila í samanlögðum þjónustuviðskiptum vegna auglýsinga, markaðsrannsókna og skoðanakannana liggja ekki fyrir.
Um gögnin
Upplýsingar um tekjur fjölmiðla eru fengnar frá rekstraraðilum fjölmiðla til Fjölmiðlanefndar frá 2011 (áður til Hagstofu Íslands) og úr ársreikningum. Í þeim tilfellum þegar upplýsingar frá rekstraaðilum skortir eru tekjurnar metnar út frá virðisaukaskatti og öðrum tiltækum upplýsingum. Fjölmiðlatekjur eru hér skilgreindar sem tekjur fjölmiðla af sölu til notenda (áskriftir, lausa- og þáttasala auk útvarpsgjalds sem lagt er á skattskylda einstaklinga og lögaðila sem ætlað er að standa straum af lögbundinni starfsemi Ríkisútvarpsins) og af birtingu og flutningi auglýsinga ásamt kostun. Upplýsingar um tekjur einstakra einkarekinna fjölmiðla eru ekki gefnar upp.
1 Til fjölmiðla teljast hér dag- og vikublöð, önnur blöð og tímarit, hljóðvarp, sjónvarp og vefmiðlar.
2 Til annarra miðla teljast hér bækur, hljóðrit, kvikmyndahús, mynddiskar, tölvuleikir og umhverfisauglýsingar.
Talnaefni
Tekjur af fjölmiðlun og skyldri starfsemi 1974-2020
Auglýsingatekjur fjölmiðla 1996-2020