FRÉTT MIÐLUN 16. DESEMBER 2022

Tekjur innlendra fjölmiðla árið 2021 námu rúmum 27 milljörðum króna. Tekjurnar jukust lítillega eða um 2% eftir að hafa dregist saman um 5% á milli áranna 2019 og 2020 í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Tekjur fjölmiðla á síðasta ári voru sambærilegar og 2015 reiknað á verðlagi ársins 2021. Tekjuaukninguna á síðasta ári má rekja til hærri tekna af auglýsingum en tekjur af þeim jukust um 9% á milli ára á sama tíma og 2% samdráttur var í notendatekjum.

Stærsti hluti tekna fjölmiðla er af notendum, um 60% á móti 40% af auglýsingum eða rúmir 16 milljarðar króna í notendatekjur á móti tæpum 11 milljörðum í auglýsingatekjur. Hlutdeild Ríkisútvarpsins í tekjum fjölmiðla á síðasta ári lækkaði lítillega á milli ára, fór úr 26% í 25% á sama tíma og auglýsingahlutdeild þess jókst úr 17% í 19%. Fimm stærstu aðilar á fjölmiðlamarkaði tóku til sín 87% af samanlögðum tekjum fjölmiðla árið 2021.

Í kjölfar kórónuveirufaraldurisins 2020 varð lítilsháttar samdráttur í tekjum fjölmiðla, þ.e. dag- og vikublaða og annarra blaða og tímarita, hljóðvarps og sjónvarps og vefmiðla. Frá 2007 til 2010 drógust tekjur fjölmiðla saman um 30% reiknað á verðlagi ársins 2021.

Eftir nokkra tekjuaukningu fjölmiðla árin 2015-2017 hafa tekjurnar fallið á nýjan leik eða um 12%. Samdráttinn er að rekja til þverrandi auglýsingatekna en þær eru nú 28% minni en þær voru árið 2016 og 44% minni en 2007 þegar þær voru mestar reiknað á föstu verðlagi. Ástæða samdráttar auglýsingatekna fjölmiðla er annars vegar að rekja til útstreymis auglýsingafjár til erlendra aðila (einkum til samfélagsmiðla og leitarvéla) og hins vegar til tilkomu nýrra miðlunarleiða og miðla svo sem streymisveitna á tónlist og bókum auk hlaðvarps.

Tekjuþróunin er ólík eftir miðlum. Blöð og tímarit hafa búið við umtalsverðan tekjusamdrátt um langt árabil á meðan aðrir miðlar hafa ekki búið við samsvarandi samdrátt. Tekjufall blaða- og tímaritaútgáfunnar er að rekja til breyttrar fjölmiðlanotkunar, sífellt aukinnar netnotkunar almennings og greiðslu auglýsenda fyrir birtingu auglýsinga á erlendum vefmiðlum. Tilkoma nýrra og fjölbreyttari leiða við miðlun hljóð- og myndefnis hefur einnig haft áhrif.

Tekjusamdráttur dag- og vikublaða hefur numið ríflega 60% frá árinu 2005. Á síðasta ári var um lítilsháttar tekjuaukningu dag- og vikublaða að ræða eða 1%. Tekjur af útgáfu tímarita og annarra blaða jukust um 12% á milli áranna 2020 og 2021. Mest var tekjuaukningin hjá vefmiðlum eða sem nam 25%. Á sama tíma drógust tekjur hljóðvarps lítilega saman en tekjur sjónvarps stóðu í stað.

Breytt fjölmiðlaneysla almennings undanfarin ár endurspeglast að nokkru í breyttri skiptingu tekna á milli fjölmiðla eins og taflan að neðan sýnir. Árið 2021 féllu 55% tekna fjölmiðla til sjónvarps og 18% til dag- og vikublaða. Hlutdeild hljóðvarps í tekjum fjölmiðla nam 13%, vefmiðla 10% og tímarita og annarra blaða en dag- og vikublaða 5%.

Frá 2000 hefur hlutdeild mismunandi miðla í fjölmiðlatekjum breyst umtalsvert. Hlutur dag- og vikublaða hefur lækkað úr 38% í 18% á sama tíma og hlutur sjónvarps hefur aukist úr 40% í 55% og vefmiðla úr 1% í 10% árið 2021. Hlutur annarra blaða og tímarita hefur tæplega helmingast eða farið úr 9% í 5% á meðan hlutur hljóðvarps hefur nánast staðið í stað, farið úr 12% árið 2000 í 13% á síðasta ári.

Af 27 milljarða króna tekjum fjölmiðla árið 2021 runnu tæpir 6,7 milljarðar króna til Ríkisútvarpsins á móti ríflega 20 milljörðum króna til fjölmiðla í einkaeigu. Hlutdeild Ríkisútvarpsins í fjölmiðlatekjum og tekjum sjónvarps dróst saman um eitt prósentustig á síðasta ári en jókst um samsvarandi tölu í hljóðvarpi. Þegar horft er til lengra tímabils fór hlutur Ríkisútvarpsins í fjölmiðlatekjum á milli áranna 2000 og 2021 úr 22% í 25%. Á sama tíma stóð hlutdeild Ríkisútvarpsins í tekjum hljóðvarps nánast í stað, úr 66% í 65%, en hlutdeild þess í tekjum sjónvarps féll úr 34% í 29%.

Hlutdeild Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum jókst á milli áranna 2020 og 2021, úr 17% í 19%. Á sama tíma fór hlutur Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum hljóðvarps úr 36% í 39% og sjónvarps úr 42% í 50%. Frá árinu 2000 hefur hlutur Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum fjölmiðla aukist úr 17% í 19% og sjónvarps úr 32% í 50%. Á sama tíma hefur hlutur þess í auglýsingatekjum hljóðvarps dregist saman úr 43% í 39%.

Af heildartekjum fjölmiðla árið 2021 runnu yfir 87% til fimm rekstraraðila að Ríkisútvarpinu meðtöldu, 94% af notendagjöldum féllu í þeirra hlut og 79% af auglýsingatekjum.

Þegar aðeins er miðað við einkarekna fjölmiðla runnu 85% af samanlögðum tekjum til fimm rekstraraðila, 95% notendagjalda og 75% auglýsingatekna.

Um gögnin
Upplýsingar um tekjur fjölmiðla eru fengnar frá rekstraraðilum fjölmiðla til Fjölmiðlanefndar frá 2011 (áður til Hagstofu Íslands) og úr ársreikningum. Í þeim tilfellum þegar upplýsingar frá rekstraaðilum skortir eru tekjurnar metnar út frá virðisaukaskatti og öðrum tiltækum upplýsingum.

Fjölmiðlar eru hér skilgreindir sem dag- og vikublöð, önnur blöð og tímarit, hljóðvarp, sjónvarp og vefmiðlar. Upplýsingar um tekjur annarra miðla eru birtar í talnaefni.

Fjölmiðlatekjur eru hér skilgreindar sem tekjur fjölmiðla af sölu til notenda, þ.e. áskriftir, lausa- og þáttasala auk útvarpsgjalds sem lagt er á skattskylda einstaklinga og lögaðila sem ætlað er að standa straum af lögbundinni starfsemi Ríkisútvarpsins, og af birtingu og flutningi auglýsinga ásamt kostun. Tekjur af annarri starfsemi er ekki meðtalin, né stuðningur stjórnvalda til einkarekinna fjölmiðla. Upplýsingar um tekjur einstaka einkarekna fjölmiðla eru ekki gefnar upp.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1051 , netfang Ragnar.Karlsson@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.