FRÉTT MIÐLUN 18. DESEMBER 2024

Tekjur fjölmiðla árið 2023 lækkuðu um 4%. Lækkunina má alfarið rekja til samdráttar í auglýsingatekjum sem lækkuðu um 12% á milli ára. Á sama tíma jukust tekjur af notendum aðeins um 1,6%. Stærstan hluta samdráttar í tekjum fjölmiðla er að rekja til þverrandi tekna dag- og vikublaða en tekjur þeirra minnkuðu um tæpan fjórðung á milli ára reiknað á föstu verði.

Stærstur hluti tekna fjölmiðla er fenginn frá notendum, um 62%, á móti 38% af auglýsingum eða 18,7 milljarðar króna í notendatekjur á móti 11,4 milljörðum í auglýsingatekjur. Hlutdeild Ríkisútvarpsins í tekjum fjölmiðla jókst lítillega á milli ára, fór úr 26% í 27%, en á sama tíma jókst auglýsingahlutdeild þess úr 20% í 22%. Fimm stærstu aðilar á fjölmiðlamarkaði tóku til sín 87% af samanlögðum tekjum fjölmiðla árið 2023.

Eftir lítillegan vöxt fjölmiðlatekna í kjölfar kórónaveirufaraldursins hafa tekjur fjölmiðla dregist saman á ný, reiknað á raunvirði. Tekjur fjölmiðla árið 2023 lækkuðu um 1,3 milljarða króna frá fyrra ári. Samdrátturinn stafar alfarið af minni auglýsingatekjum sem minnkuðu um 1,6 milljarða króna. Tekjur af notendum árið 2023 jukust lítillega eða um 300 milljónir króna. Stóran hluta minni auglýsingatekna má rekja til þess að útgáfu fríblaðsins Fréttablaðsins var hætt á fyrri hluta ársins en blaðið var á meðal stórtækustu aðila á auglýsingamarkaði.

Þróun fjölmiðlatekna er sýnd í myndinni að neðan þar sem tekjur fjölmiðla 2010–2023 er tilgreind sem vísitala reiknuð á föstu verðlagi. Eftir nokkra tekjuaukningu fjölmiðla árin 2015–2017 hafa tekjurnar fallið á nýjan leik eða um 15%. Samdráttinn má að stærstum hluta rekja til þverrandi auglýsingatekna en þær eru nú fast að 35% minni en þær voru árið 2016 þegar þær voru mestar og 6% minni en 2010. Ástæða samdráttar auglýsingatekna fjölmiðla má annars vegar rekja til útstreymis auglýsingafjár til erlendra aðila (einkum til samfélagsmiðla og leitarvéla) og hins vegar til tilkomu nýrra miðlunarleiða svo sem streymisveitna (sjá frétt 27. nóvember 2024). Á hinn bóginn hafa tekjur fjölmiðla af notendum aukist um 16% frá 2010.

Tekjuþróunin er afar ólík eftir miðlum eins og tilgreint er í töflunni að neðan. Dag- og vikublöð, og að nokkru önnur blöð og tímarit, hafa búið við umtalsverðan tekjusamdrátt um langt árabil. Á rúmum áratug, eða frá árinu 2010 að telja, hafa tekjur dag- og vikublaða helmingast. Munar þar mestu um 60% samdrátt auglýsingatekna samanborið við tæplega 30% minni tekjur af notendum. Samdráttur tekna í útgáfu annarra blaða og tímarita yfir sama árabil nemur um 30%. Á sama tíma jukust tekjur annarra fjölmiðla. Tekjuaukning hljóðvarps nam 25%, sjónvarps 16% og tekjur vefmiðla fjórfölduðust. Tekjur hlaðvarps hafa sömuleiðis fjórfaldast frá 2020.

Breytt fjölmiðlaneysla almennings undanfarin ár endurspeglast að nokkru í breyttri skiptingu tekna á milli fjölmiðla eins og taflan að neðan sýnir. Árið 2023 féllu 55% tekna fjölmiðla til sjónvarps og 15% til hljóðvarps. Hlutdeild dag- og vikublaða í tekjum fjölmiðla nam 13%, vefmiðla 12% og tímarita og annarra blaða en dag- og vikublaða 4%. Hlutdeild hlaðvarps í fjölmiðlatekjum er enn afar takmörkuð eða 1%.

Frá 2010 hefur hlutdeild dag- og vikublaða í fjölmiðlatekjum minnkað úr 27% í 13% á sama tíma og hlutur sjónvarps hefur aukist úr 51% í 55% og vefmiðla úr 2% í 12% árið 2023. Hlutur annarra blaða og tímarita hefur nær helmingast, eða farið úr 7% í 4%, á meðan hlutur hljóðvarps hefur lítillega aukist, úr 13% í 15%.

Samfara þverrandi tekjum fjölmiðla af auglýsingum yfir nokkurt árabil hefur hlutur tekna af notendum farið vaxandi. Í töflunni að neðan er innbyrðis skipting fjölmiðlatekna eftir tegund sýnd frá 2010 til 2023.

Hlutur tekna fjölmiðla af notendum hefur aukist úr 57% í 62% og á meðan hlutur auglýsinga hefur fallið úr 43% í 38% eða sem nemur breytingu upp á fimm prósentustig. Misjafnt er eftir miðlum hver þróunin hefur verið á innbyrðis hlutfalli á milli notenda- og auglýsingatekna. Þannig vógu notendatekjur dag- og vikublaða 13 prósentustigum meira 2023 en þær gerðu 2010, notendatekjur sjónvarps sex prósentustigum meira og vefmiðla 17 prósentustigum. Á sama tíma vega auglýsingatekjur tímarita og annarra blaða 32 prósentustigum meira. Innbyrðis skipting tekna hljóðvarps af notendum og auglýsingum er óbreytt frá 2010.

Af ríflega 30 milljarða króna tekjum fjölmiðla árið 2023 runnu 8,1 milljarður króna til Ríkisútvarpsins á móti 21,9 milljörðum króna til fjölmiðla í einkaeigu. Hlutdeild Ríkisútvarpsins í fjölmiðlatekjum jókst um eitt prósentustig á síðasta ári og var 27%. Hlutdeild tekna Ríkisútvarpsins í tekjum af hljóðvarpi jókst um eitt prósentustig og fór í 64% en jókst úr 31% í 32% er sjónvarp áhrærir. Þegar horft er til lengra tímabils jókst hlutur Ríkisútvarpsins í fjölmiðlatekjum á milli áranna 2010 og 2023 í 27% úr 24%. Á sama tíma minnkaði hlutdeild Ríkisútvarpsins í tekjum hljóðvarps úr 67% í 64% á meðan hlutdeild þess í tekjum sjónvarps dróst saman um eitt prósentustig í 32%.

Hlutdeild Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum jókst á milli áranna 2022 og 2023 eða úr 20% í 22%. Á sama tíma fór hlutur þess í auglýsingatekjum sjónvarps úr 56% í 57% en var óbreyttur í hljóðvarpi eða 37%. Frá árinu 2010 hefur hlutdeild Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum fjölmiðla aukist um þrjú prósentustig, eða farið úr 19% í 22%, og 12 prósentustig í sjónvarpi eða úr 45% í 57%. Á sama tíma hefur hlutur þess í auglýsingatekjum hljóðvarps dregist saman um fimm prósentustig eða farið úr 42% í 37%.

Að teknu tilliti til tekjudreifingar á milli fjölmiðla gætir verulegar samþjöppunar á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Af heildartekjum fjölmiðla árið 2023 runnu 87% til fimm rekstraraðila að Ríkisútvarpinu meðtöldu, 94% af notendagjöldum féllu í þeirra hlut og 76% af auglýsingatekjum.

Þegar aðeins er miðað við einkarekna fjölmiðla runnu 84% af samanlögðum tekjum til fimm rekstraraðila, 93% notendagjalda og 72% auglýsingatekna.

Um gögnin
Upplýsingar um tekjur fjölmiðla eru fengnar frá rekstraraðilum fjölmiðla til Fjölmiðlanefndar frá 2011 og úr ársreikningum. Í þeim tilfellum þegar upplýsingar frá rekstraaðilum skortir eru tekjurnar metnar út frá virðisaukaskatti og öðrum tiltækum upplýsingum. Áður birtar upplýsingar eru endurskoðaðar með aðgengi að nýjum og áður ókunnum upplýsingum. Fjölmiðlar eru hér skilgreindir sem dag- og vikublöð, önnur blöð og tímarit, hljóðvarp, sjónvarp, vefmiðlar og hlaðvörp. Upplýsingar um tekjur annarra miðla eru birtar í talnaefni.

Fjölmiðlatekjur eru hér skilgreindar sem tekjur fjölmiðla af sölu til notenda, þ.e. áskriftir, lausa- og þáttasala auk útvarpsgjalds sem lagt er á skattskylda einstaklinga og lögaðila sem ætlað er að standa straum af lögbundinni starfsemi Ríkisútvarpsins, og af birtingu og flutningi auglýsinga ásamt kostun. Tekjur af annarri starfsemi er ekki meðtalin, né beinir styrkir stjórnvalda til einkarekinna fjölmiðla.

Upplýsingar um tekjur einstaka einkarekna fjölmiðla eru ekki gefnar upp.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1051 , netfang Ragnar.Karlsson@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.