FRÉTT MIÐLUN 12. OKTÓBER 2017

Útgáfa og sala hljóðrita hérlendis hefur dregist stórlega saman á undanförnum árum. Útgáfum hljóðrita (á geisladiskum, plötum og snældum) hefur fækkað um helming frá því er best lét um miðbik síðasta áratugar. Samdráttur í sölu eintaka og verðmæti frá útgefendum og dreifendum hefur verið enn meiri. Frá aldamótum lætur nærri að seldum eintökum hafi fækkað um 87 af hundraði og söluverðmæti lækkaði um 80 af hundraði reiknað á föstu verðlagi. Ört vaxandi tekjur af niðurhali og streymi á tónlist hin allra síðustu ár vegur lítið upp á móti þeim samdrætti sem orðið hefur í tekjum af sölu tónlistar.

Frá 1979 og fram til 1991, er útgáfum tók að fjölga umtalsvert með tilkomu geisladisksins, voru að jafnaði gefin út innan við 70 hljóðrit árlega . Útgáfan náði hámarki árið 2006, en það ár voru útgefnir titlar 299 að tölu. Síðan hefur útgefnum titlum fækkað nær samfellt, en árin 2014 og 2015 voru útgáfurnar 142 og 138 hvort ár, eða víðlíka fjöldi og í upphafi tíunda áratugarins (sjá mynd 1).

 


Árið 2016 seldust hér á landi 112 þúsund eintök geisladiska og hljómplatna samanborið við 868 þúsund eintök árið 1999 er fjöldi seldra eintaka náði hámarki. Frá árinu 2005 hefur seldum eintökum fækkað samfellt eða úr 823 þúsundum árið 2005 (sjá mynd 2). Seldum eintökum á íbúa hefur fækkað úr 3,1 árið 1999 í 0,3 árið 2016. Samfelldar tölulegar upplýsingar um útgáfu og fjölda niðurhals og streymis skráa með tónlist á stafrænu formi eru ekki fyrirliggjandi.

Heildarverðmæti seldra geisladiska, hljómplatna og stafrænna skráa á síðasta ári nam 455 milljónum króna, eða innan við þriðjungi af söluverðmæti ársins 1999, reiknað á verðlagi þess árs. Á síðasta ári varð í fyrsta sinn í mörg ár lítilleg aukning í söluandvirði tónlistar frá fyrra ári. Stafar það af sífellt auknu vægi sölu á stafrænum skrám af heildarsölu hljóðrita. Tilkoma sölu hljóðrita í formi stafrænna skráa í niðurhali og streymi hefur þó engan veginn dugað til að vega upp á móti þeim samdrætti sem orðið hefur í sölu geisladiska og hljómplatna. Frá árinu 2010 er tölur voru fyrst teknar saman um söluverðmæti stafrænna skráa nemur sala þeirra stöðugt stærri hluta af hljóðritasölunni talið í verðmætum, eða frá um sex af hundraði árið 2010 í 60 af hundraði af sölu síðasta árs (sjá mynd 3).

 

Tölur um útgefin hljóðrit eru teknar saman úr Íslenskri útgáfuskrá Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns (slóð: http://www.utgafuskra.is/) og birtar á vef Hagstofunnar. Upplýsingar Íslenskrar útgáfuskrár eru byggðar á skylduskilum útgefenda til Landsbókasafns – Háskólabókasafns. Skráin er uppfærð reglulega og í henni birtast þær útgáfur sem útgefendur hafa staðið skil á til safnsins. Niðurstöður talningar úr grunninum eru því ekki samhljóða frá einum tíma til annars. Hér er miðað við stöðu skráningar þann 4. október 2017. Tölur um fjölda útgefinna hljóðrita hin síðustu ár eiga eftir að hækka frá því sem hér er miðað við með frekari innheimtu skylduskila frá útgefendum. Upplýsingar Íslenskrar útgáfuskrár taka aðeins til hljóðrita útgefinna á efnislegu formi (á diskum, hljómplötum og snældum). Tölulegar upplýsingar um útgáfu hljóðrita á stafrænu formi eru ekki tiltækar.

Upplýsingar um dreifingu og sölu hljóðrita eru fengar úr árlegu upplagseftirliti Félags hljómplötuframleiðenda. Úttekt síðasta árs náði til allra helstu innlendra framleiðenda og dreifenda geisladiska og hljómplatna, auk tveggja söluaðila rafrænnar tónlistar, Tónlist.is og Spotify.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1051 , netfang Ragnar.Karlsson@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.