Verð á raforku til venjulegra heimila hefur haldist nær óbreytt á Íslandi undanfarin átta ár þegar miðað er við jafnvirðisgjald, þar sem leiðrétt er fyrir gjaldmiðlum, og við raforkusölu á bilinu 2.500-5.000 kílóvött sem er dæmigerð fyrir heimilisnotkun. Hið sama á við um Finnland.
Þegar horft er til hinna Norðurlandanna hefur raforkuverð í Danmörku hins vegar hækkað nokkuð ört undanfarið ár á sama mælikvarða. Þannig hækkaði verð á raforku þar í landi um 55% á milli fyrri hluta ársins 2021 og sama tímabils á þessu ári.
Talsverð hækkun hefur einnig orðið í Noregi og Svíþjóð. Þó lítil hækkun hafi átt sér stað á milli síðari hluta 2021 og fyrri hluta 2022 hækkaði verð hins vegar um 50% á milli síðari hluta ársins 2020 og sama tímabils á síðasta ári.
Miðað við fréttir fjölmiðla hefur verð á raforku haldið áfram að hækka ört á yfirstandandi árshelmingi hjá nágrannaríkjum Íslands en gert er ráð fyrir uppfærðu talnaefni um raforkuverð snemma á næsta ári.