Reglur um birtingar
- Allt útgefið efni Hagstofu Íslands er birt samkvæmt áætlun: fréttatilkynningar, talnaefni og útgáfur.
- Hagstofan gerir birtingaráætlun fyrir heilt almanaksár (1. janúar til 31. desember) og gefur hana út í nóvember ár hvert. Á henni eru staðfestar dagsetningar fyrir verðtryggingarvísitölur, launavísitölu (þar með talda vísitölu greiðslujöfnunar), svo og hagtölur um landsframleiðslu, vinnumarkað og utanríkisverslun.
- Annað efni en það sem að ofan greinir er fært á birtingaráætlunina eftir þörfum. Dagsetningar næstu átta virka daga fram í tímann eru hins vegar staðfestar og taka ekki breytingum en aðrar dagsetningar geta tekið breytingum.
- Reynist óhjákvæmilegt að víkja frá staðfestri dagsetningu næstu átta virka daga þá gefur Hagstofan út fréttatilkynningu um það.
- Að auki birtir Hagstofan skammtímatölfræði sem er undanskilin átta daga reglunni. Skammtímatölur er hægt að setja á birtingaráætlun allt að tveimur virkum dögum fyrir birtingardag.
- Hagstofan birtir öllum notendum efni sitt samtímis. Allt efni á birtingaráætlun er gefið út kl. 9.00 að morgni. Notendur geta fengið sendar tilkynningar um nýjar fréttir með tölvupósti skrái þeir sig í áskriftarþjónustu Hagstofunnar. Auk þess veitir skiptiborð Hagstofunnar, upplýsingaþjónusta eða ábyrgðarmaður birtingar nánari upplýsingar frá kl. 9.00 birtingardaginn. Vegna sérstöðu þjóðhagsspár og notkunar hennar við undirbúning fjárlaga og ríkisfjámálastefnu fær fjármála- og efnahagsráðuneytið drög að þjóðhagsspá allt að tveimur vikum fyrir almenna birtingu.
Reglur um leiðréttingar
- Ef rangar niðurstöður koma fram í fréttatilkynningu Hagstofunnar er gefin út önnur fréttatilkynning með leiðréttum tölum. Tilkynning er jafnframt birt í upphaflegri frétt um leið og villa er staðfest.
- Komi fram villur í myndritum og töflum í fréttatilkynningu er hún leiðrétt og þess getið í fréttinni.