FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 29. NÓVEMBER 2024

Verðmæti afla við fyrstu sölu var 125,7 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 samkvæmt bráðabirgðatölum. Um er að ræða 19% samdrátt frá sama tímabili árið 2023 en þá var aflaverðmæti tæplega 155 milljarðar króna.

Magn afla dróst saman um 34% og heildaraflinn var 741 þúsund tonn á fyrstu þremur ársfjórðungum en var 1.120 þúsund tonn á sama tímabili á síðast ári.

Botnfiskaflinn á fyrstu þremur ársfjórðungum 2024 var 317 þúsund tonn sem er 6% meira en á sama tíma í fyrra og var verðmæti aflans við fyrstu sölu 94,5 milljarðar króna sem er sama verðmæti og á sama tímabili 2023.

Af botnfiskafla var áberandi aukning í ýsu en 28% meira var landað af henni á fyrstu níu mánuðum 2024 borið saman við síðasta ár. Verðmæti ýsuaflans jókst um 4% og er komið í 14,7 milljarða króna í ár. Þorskaflinn á tímabilinu var nokkuð svipaður og á fyrra ári eða að verðmæti um 60 milljarðar króna.

Uppsjávaraflinn 2024 var samtals 403 þúsund tonn sem er 49% minna en á fyrstu þrem ársfjórðungum 2023 og var verðmæti uppsjávarfiska við fyrstu sölu 21,5 milljarðar króna í ár sem er 55% samdráttur í aflaverðmæti.

Af uppsjávarafla munar mestu um að engin loðna hefur verið veidd á árinu. Síldaraflinn minnkaði um 35% og nam samdráttur í verðmætum við fyrstu sölu um 38%. Þá minnkaði makrílaflinn um 37% og sem þýðir 43% samdrátt í verðmætum.


Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fiskitolur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.