Landaður afli nam tæpum 70 þúsund tonnum í febrúar 2025 sem er 3% meira en í febrúar 2024. Um 5% samdráttur varð í botnfiskafla en uppsjávarafli jókst hins vegar um 16%.
Af botnfiski var mest landað af þorski, tæp 22 þúsund tonn, sem er 4% minna en í febrúar í fyrra. Af uppsjávarafla var mest landað af kolmunna eða rúm 23 þúsund tonn, sem er 14% minna en í fyrra. Rúmum fjögur þúsund tonnum af loðnu var landað í febrúar 2025 en engar loðnuveiðar voru leyfðar í fyrra.
Á tímabilinu mars 2024 til febrúar 2025 var landað samtals 987 þúsund tonnum sem er 23% minni afli en á sama tímabili ári fyrr. Það er að mestu leyti vegna brests á loðnuveiðum árið 2024.
Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.