Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum ágústmánuði var 89.449 tonn sem er 1.736 tonna minni afli en í ágústmánuði 2005 en þá veiddust 91.186 tonn. Milli ágústmánaða 2005 og 2006 dróst verðmæti fiskaflans saman á föstu verði um 4,9%. Það sem af er árinu 2006 hefur verðmæti fiskaflans, á föstu verði, dregist saman um 7,6% miðað við árið 2005.

Botnfiskafli var 37.400 tonn samanborið við 36.500 tonn í ágústmánuði 2005 og jókst því um rúm 900 tonn. Þorskafli dróst saman í ágúst 2006 um rúm 500 tonn, ýsuaflinn jókst um tæp 2.800 tonn og aukning var í ufsaaflanum um tæplega 800 tonn milli ára.

Afli uppsjávartegunda nam rúmum 50.000 tonnum, þar af nam síldarafli tæpum 33.000 tonnum og kolmunni rúmlega 16.000 tonnum. Í samanburði við afla ágústmánaðar 2005 er samdráttur í síldarafla um 13.500 tonn en kolmunnaaflinn jókst um rúm 12.000 tonn.

Skel- og krabbadýraafli var 226 tonn samanborið við 2.500 tonna afla í ágúst 2005. Aflasamdráttur í rækju og kúfiski nam um 1.100 tonnum í hvorri tegund milli ára.

Heildarafli íslenskra skipa það sem af er árinu 2006 nemur tæpum 968.000 tonnum og er það 338.000 tonna minni afli en á sama tímabili árið 2005.

¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Talnaefni