FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 14. MAÍ 2004

Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum aprílmánuði var tæplega 80.100 tonn sem er um 7.500 tonnum meiri afli en í aprílmánuði 2003 en þá veiddust um 72.600 tonn. Milli aprílmánaða 2003 og 2004 jókst verðmæti fiskaflans, á föstu verði ársins 2002, um 3,4% og það sem af er árinu 2004 hefur það aukist um 6,4% miðað við árið 2003.
     Botnfiskafli var 46.800 tonn samanborið við 45.260 tonn í aprílmánuði 2003 og jókst því um 1.500 tonn á milli ára. Þorskafli var 21.500 tonn en 16.160 tonn bárust á land í aprílmánuði 2003 og er það aukning um 5.300 tonn. Af ýsu veiddust tæplega 8.500 tonn en í apríl í fyrra veiddust tæplega 4.800 tonn og nemur aukning ýsuaflans 3.700 tonnum. Ufsaafli var 5.300 tonn og er það tæplega 1.100 tonnum meira en í aprílmánuði 2003. Karfaafli var 7.600 tonn en það er rúmlega 3.700 tonna samdráttur milli ára.
     Flatfiskafli var 1.900 tonn og dróst saman um rúmlega 1.900 tonn frá aprílmánuði 2003. Mestur varð grálúðuaflinn eða 700 tonn en í apríl í fyrra var grálúðuaflinn 2.400 tonn og er því um að ræða 1.700 tonna samdrátt í grálúðuafla á milli ára. Af skarkola var landað 370 tonnum og tæplega 260 tonnum af skrápflúru.
     Kolmunnaafli í nýliðnum aprílmánuði var 28.300 tonn en í fyrra bárust 15.800 tonn á land og nemur aukning kolmunnaaflans á milli ára 12.500 tonnum. Engin síldveiði var í ár en í aprílmánuði í fyrra var síldaraflinn um 3.700 tonn.
     Skel- og krabbadýraafli var tæplega 2.900 tonn samanborið við tæplega 4.000 tonna afla í apríl 2003. Af rækju veiddust 2.100 tonn og tæplega 600 tonn af kúfiski. Þá var humarveiði 178 tonn en var 141 tonn í aprílmánuði 2003.
     Heildarafli íslenskra skipa á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2004 var 721.300 tonn og er það ríflega 81.000 tonna minni afli en á árinu 2003. Botnfiskafli var rúmlega 181.000 tonn sem er um 20.000 tonnum meiri afli en á sama tímabili 2003. Þorskaflinn var 95.000 tonn og er það aukning um nærri 12.500 tonn. Ýsuaflinn var 33.000 tonn sem er aukning um 13.800 tonn. Ufsaaflinn var orðinn 17.400 tonn og hafði aukist um 3.100 tonn en karfaaflinn var orðinn 22.000 tonn og hafði dregist saman um 5.500 tonn.
     Flatfiskaflinn var 8.800 tonn, þar af voru 3.700 tonn af grálúðu, tæplega 1.900 tonn af skarkola og 1.600 tonn af skrápflúru.
Loðnuaflinn nam 480.000 tonnum sem er tæplega 103.000 tonna samdráttur frá árinu 2003. Kolmunnaaflinn var orðinn 32.200 tonn og hafði aukist um 10.000 tonn á milli ára.
     Skel- og krabbadýraaflinn var tæplega 8.300 tonn samanborið við nærri 13.700 tonna afla árið 2003. Mestu munar um rúmlega 2.200 tonna samdrátt í rækjuafla og tæplega 2.400 tonna samdrátt í kúfiskafla. Þá gætir 800 tonna samdráttar í hörpudiskafla vegna veiðibanns í Breiðafirði.

¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.