Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum febrúarmánuði metinn á föstu verðlagi var tæpum 10% minni en í sama mánuði 2005. Aflinn var alls 214.251 tonni samanborið við 300.969 tonn í febrúar í fyrra. Það sem af er árinu hefur aflinn dregist saman um 18% miðað við sama tímabil í fyrra, sé hann metin á föstu verðlagi. Afli íslenskra skipa fyrstu tvo mánuði ársins var 255.790 tonn en nam 537.837 tonnum í fyrra.
Það er slök útkoma loðnuvertíðar sem veldur þessum samdrætti milli ára og mánaða. Í febrúarmánuði í ár lönduðu íslensk skip tæpum 160.000 tonnum af loðnu en í fyrra ríflega 246.000 tonnum. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins hafa því borist rúm 168.000 tonn af loðnu samanborið við rúmlega 449.000 tonn í fyrra.
Botnfiskaflinn var 49.200 tonn í febrúar en var 50.900 í fyrra. Þorskaflinn var 25.900 tonn en ýsuaflinn tæp 8.800 tonn en afli ýsu dróst saman um 1.200 tonn. Það sem af er árinu nam afli botnfisks 79.800 tonnum sem er 3.900 tonnum minni afli en í fyrra.
¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.
Talnaefni