Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum janúarmánuði metin á föstu verðlagi var rösklega 30% minni en í janúar 2005. Aflinn nam alls 40.625 tonnum samanborið við 236.868 tonn í janúar í fyrra.

Botnfiskaflinn var rúm 30.100 tonn sem er 2.700 tonnum minna en í fyrra. Þar af var þorskaflinn rúm 15.900 tonn og hafði dregist saman um 700 tonn. Ýsuaflinn dróst saman um 1.000 tonn, var 6.700 tonn í ár og ufsaaflinn var tæp 3.000 tonn sem er 1.200 tonnum minni afli en í janúar í fyrra.

Flatfiskaflinn jókst hins vegar á milli ára og er það fyrst og fremst aukning í grálúðuafla sem veldur. Í heild nam flatfiskaflinn 1.700 tonnum sem er því sem næst tvöfalt meiri afli en í janúar 2005. Þar af var grálúðuaflinn rúm 800 tonn en var rúm 200 tonn á sama tíma í fyrra.

Hin slaka útkoma janúarmánaðar orsakast öllu fremur af vandfundinni loðnu. Í janúar í fyrra nam loðnuaflinn ríflega 202.600 tonnum en í ár bárust einungis 8.100 tonn á land í janúar.

Engin rækjuveiði var í janúar í ár.


¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Talnaefni