Afli á föstu verði
Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum janúarmánuði, metinn á föstu verði, var 8,9% minni en í janúar 2009.
Afli í tonnum
Aflinn nam alls 55.445 tonnum í janúar 2010 samanborið við 71.520 tonn í janúar 2009.
Botnfiskafli dróst saman um rúm 1.700 tonn frá janúar 2009 og nam 31.300 tonnum. Þar af nam þorskaflinn rúmum 17.400 tonnum, sem er aukning um 1.700 tonn frá fyrra ári. Ýsuaflinn nam rúmum 5.400 tonnum sem er um 1.400 tonnum minni afli en í janúar 2009. Karfaaflinn dróst saman um 1.200 tonn samanborið við janúar 2009 og nam tæpum 2.400 tonnum. Um 2.700 tonn veiddust af ufsa sem er um 600 tonnum minni afli en í janúar 2009.
Afli uppsjávartegunda nam rúmum 22.000 tonnum sem er tæplega 14.500 tonnum minni afli en í janúar 2009. Samdrátt í uppsjávarafla má helst rekja til minni síldarafla en 6.400 tonn veiddust af síld í janúar samanborið við 18.500 tonna afla í janúar 2009. Kolmunnaafli nam 5.300 tonnum og dróst saman um 8.000 tonn frá fyrra ári. Afli gulldeplu nam 10.600 tonnum sem er aukning um tæp 5.700 tonn miðað við janúar 2009.
Flatfiskaflinn var 1.397 tonn í janúar 2010 og dróst saman um 248 tonn frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraafli nam 340 tonnum samanborið við um 57 tonna afla í janúar 2009.
Munur á afla á föstu verði og í tonnum
Afli á föstu verði er reiknaður út til þess að finna breytingu á verðmæti heildaraflans að gefinni þeirri forsendu að verðhlutföll milli einstakra fisktegunda séu þau sömu og á ákveðnu viðmiðunarári sem hér er árið 2008. Hér er því um að ræða hliðstæðu við umreikning á afla yfir í þorskígildi. Aflinn í tonnum sýnir hins vegar magn aflans án tillits til þess að fisktegundir eru misjafnlega verðmætar.
Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.