Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum júnímánuði, metinn á föstu verði, var 10,2% minni en í júní 2005. Aflinn nam alls 133.618 tonnum samanborið við 155.396 tonn í júní í fyrra. Á fyrri helmingi ársins hefur aflinn dregist saman um 9,4% miðað við sama tímabil 2005, sé hann metinn á föstu verði. Afli fyrstu sex mánuði ársins var 787.813 tonn en var 1.166.959 tonn í fyrra.

Botnfiskafli síðastliðinn júnímánuð nam tæpum 37.000 tonnum sem er 6.000 tonnum meiri afli en í sama mánuði í fyrra. Samdráttur í þorskafla nam 2.600 tonnum en ýsuafli jókst um 1.700 tonn, ufsaafli um 1.500 tonn og úthafskarfi um 5.200 tonn.

Flatfiskafli dróst saman um 1.700 tonn og munar þar mestu um að grálúðuafli er ekki nema helmingur af afla ársins 2005 eða um 1.300 tonn.

Uppsjávaraflinn nam 93.000 tonnum en þar af var kolmunni 75.000 tonn. Samdráttur í uppsjávarafla frá fyrra ári nemur tæpum 26.000 tonnum.

Á fyrri helmingi ársins nemur afli íslenskra skipa tæpum 788.000 tonnum sem telst vera tæplega 380.000 tonnum minni afli en á sama tímabili árið 2005. Ástæðan er mikill samdráttur í loðnuafla eða sem nemur 411.000 tonnum. Á móti vegur aukinn kolmunnaafli um 50.000 tonn og aukinn botnfiskafli sem nemur 6.000 tonnum.

¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Talnaefni