Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum maímánuði var rúmlega 151.900 tonn sem er um 4.200 tonnum meiri afli en í maímánuði 2003 en þá veiddust 147.800 tonn. Milli maímánaða 2003 og 2004 dróst verðmæti fiskaflans, á föstu verði ársins 2002, saman um 15,2% en það sem af er árinu 2004 hefur það aukist um 1,6% miðað við árið 2003.
Botnfiskafli var 36.700 tonn samanborið við 46.100 tonn í maímánuði 2003 og dróst því saman um 9.400 tonn á milli ára. Þorskafli var 17.600 tonn en 15.400 tonn bárust á land í maí 2003 og er það aukning um 2.200 tonn. Af ýsu veiddust tæplega 5.500 tonn en í fyrra veiddust 3.900 tonn og nemur aukning ýsuaflans því tæplega 1.600 tonnum. Úthafskarfaafli var 3.600 tonn í ár en 15.300 tonn í fyrra og er það rúmlega 11.700 tonna samdráttur milli ára.
Flatfiskafli var 4.100 tonn og dróst saman um tæplega 2.000 tonn frá maímánuði 2003. Mestur varð grálúðuaflinn eða 2.500 tonn en í maí í fyrra var grálúðuaflinn 4.200 tonn og er því um að ræða 1.700 tonna samdrátt í grálúðuafla á milli ára. Af skarkola var landað 550 tonnum og rúmlega 400 tonnum af sandkola.
Kolmunnaafli í nýliðnum maímánuði var 93.200 tonn en í fyrra bárust 60.500 tonn á land og nemur aukning kolmunnaaflans á milli ára 32.800 tonnum. Síldaraflinn var tæplega 15.100 tonn í ár sem er helmingi minni afli en fyrir sama tímabil í fyrra.
Skel- og krabbadýraafli var liðlega 2.900 tonn samanborið við tæplega 5.100 tonna afla í maí 2003 og nemur samdrátturinn 2.200 tonnum. Af rækju veiddust 1.500 tonn og rúmlega 800 tonn af kúfiski. Þá var humarveiði 544 tonn en var 669 tonn í maímánuði 2003.
Heildarafli íslenskra skipa á fyrstu fimm mánuðum ársins 2004 var 874.300 tonn og er það 76.500 tonna minni afli en á árinu 2003. Botnfiskafli var rúmlega 218.000 tonn sem er 10.500 tonnum meiri afli en á sama tímabili 2003. Þorskaflinn var 112.600 tonn og er það aukning um 14.700 tonn. Ýsuaflinn var 38.500 tonn sem er aukning um 15.300 tonn. Ufsaaflinn var 21.000 tonn og hafði aukist um 2.900 tonn en karfaaflinn var orðinn 25.300 tonn og hafði dregist saman um 5.800 tonn. Í maímánuði 2003 var úthafskarfaaflinn þegar orðinn 18.600 tonn en á þessum fyrstu fimm mánuðum ársins 2004 er aflinn einungis 3.700 tonn og er þetta 15.000 tonna samdráttur á milli ára.
Flatfiskaflinn var 12.900 tonn, þar af voru 6.200 tonn af grálúðu, af skarkola höfðu veiðst 2.400 tonn og 1.600 tonn af skrápflúru.
Loðnuaflinn nam 480.000 tonnum sem er rúmlega 103.600 tonna samdráttur frá árinu 2003. Kolmunnaaflinn var orðinn 126.800 tonn og hafði aukist um 44.200 tonn á milli ára. Af síld höfðu borist á land 24.400 tonn en 40.900 tonn á sama tímabili í fyrra.
Skel- og krabbadýraaflinn var tæplega 11.300 tonn samanborið við nærri 18.800 tonna afla árið 2003. Mestu munar um rúmlega 3.800 tonna samdrátt í rækjuafla og tæplega 2.700 tonna samdrátt í kúfiskafla. Þá hefur ekki verið veiddur hörpudiskur á Breiðafirði um langa hríð.
¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu. |