FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 16. DESEMBER 2004

Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum nóvembermánuði var 137.800 tonn og er það ríflega 2.800 tonnum minni afli en í nóvembermánuði 2003 en þá var aflinn 140.600 tonn. Breytt aflasamsetning á milli nóvembermánaða 2003 og 2004 gerir það að verkum að verðmæti fiskaflans, á föstu verði ársins 2002, eykst um 11,9%. Það sem af er árinu 2004 hefur verðmæti fiskaflans, á föstu verði ársins 2002, aukist um 0,3% miðað við árið 2003.
     Botnfiskafli var 46.600 tonn samanborið við 38.900 tonn í nóvembermánuði 2003 og nemur aukningin 7.700 tonnum á milli ára. Þorskafli var 22.500 tonn en 19.800 tonn bárust á land í nóvember 2003 og því jókst þorskaflinn um tæplega 2.700 tonn á milli ára. Af ýsu veiddust 9.900 tonn en í fyrra veiddust 8.400 tonn og nemur aukning ýsuaflans því 1.500 tonnum. Ufsaafli var 7.200 tonn í nóvembermánuði í ár en var 4.500 tonn í fyrra og er það 2.800 tonna aukning á milli ára.
     Flatfiskafli var 2.100 tonn og jókst um rúm 100 tonn frá nóvembermánuði 2003. Af grálúðu veiddust rúmlega 700 tonn og yfir 400 tonn veiddust af sandkola.
     Afli uppsjávartegunda nam 87.300 tonnum og var síldaraflinn 55.600 tonn og kolmunnaaflinn 31.100 tonn. Í samanburði við afla nóvembermánaðar 2003 þá jókst síldaraflinn um 6.400 tonn en kolmunnaaflinn dróst saman um 17.100 tonn.
     Skel- og krabbadýraafli var 1.700 tonn samanborið við 2.400 tonna afla í nóvember 2003. Mestur var samdrátturinn í rækjuaflanum eða 600 tonn.
     Á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2004 nemur heildarafli íslenskra fiskiskipa 1.643.100 tonnum og er það samdráttur um 247.000 tonn frá árinu 2003. Botnfiskafli var 457.600 tonn og hefur því aukist um 25.400 tonn frá fyrra ári. Flatfiskafli hefur dregist saman um 4.800 tonn og uppsjávarafli hefur einnig dregist saman eða sem nemur 254.900 tonnum. Mestur er samdrátturinn í loðnuafla eða 162.100 tonn, hann var 24.400 tonn í síldarafla og 68.300 tonn í kolmunnaafla. Þá er skel- og krabbadýraaflinn 12.600 tonnum minni í ár en á sama tímabili ársins 2003.





¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.