FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 16. NÓVEMBER 2006

Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum októbermánuði, metinn á föstu verði, var 0,4% minni en í október 2005. Það sem af er árinu hefur aflinn dregist saman um 0,9% miðað við sama tímabil 2005, sé hann metinn á föstu verði. Aflinn nam alls 87.231 tonnum í október 2006 samanborið við 86.827 tonn í október í fyrra.

Botnfiskafli jókst um tæp 800 tonn frá októbermánuði 2005 og nam rúmlega 39.000 tonnum. Þorskafli dróst saman í október 2006 um tæp 1.900 tonn, ýsuaflinn dróst saman um tæplega 1.300 tonn, ufsaaflinn jókst um rúmlega 1.200 og karfaaflinn jókst um tæplega 1.000 tonn.

Afli uppsjávartegunda nam tæpum 46.000 tonnum og var að stærstum hluta síldarafli.

Skel- og krabbadýraafli var rúm 350 tonn samanborið við rúmlega 800 tonna afla í október 2005. Aflasamdráttur í rækju er um 300 tonn og kúfiski um 160 tonn.

Heildarafli íslenskra skipa það sem af er árinu 2006 nemur rúmum 1.142.000 tonnum og er það 355.000 tonna minni afli en á sama tímabili árið 2005.

Samhliða birtingu fiskafla í október 2006 hefur magnvísitala fiskaflans verið endurskoðuð. Útreikningar á magnvísitölu byggjast nú á sambærilegum bráðabirgðatölum aflans hver tvö ár en hætt er samanburði við uppfærðar tölur. Útreikningar hafa því verið endurskoðaðir aftur til ársins 2000 og er magnvísitalan keðjutengd frá þeim tíma þannig að samfelld tímaröð myndast.

Við útreikning á föstu verði er gerður greinarmunur á grunnári og viðmiðunarári. Fjárhæðir eru reiknaðar á verði grunnárs en viðmiðunarár er árið sem vísitalan er stillt á 100. Oft eru þessi tvö ár hin sömu. Það á þó ekki við hér. Í hefðbundnum magnvísitöluútreikningum telst grunnárið hið fyrra af tveimur í samanburði. Í magnvísitölu fiskafla eru hins vegar notaðar verðupplýsingar sem eru einu ári eldri en fyrra árið í samanburðinum og telst það því grunnárið.

Í þessari nýju keðjutengdu vísitölu er viðmiðunarár ákveðið árið 2004, þ.e.a.s. meðal-mánaðarafli en það virðist nokkuð dæmigert ár í samanburði við önnur.

 

¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Vörulýsingu um mánaðarlegar aflatölur úr Lóðs má nálgast hér

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.