FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 23. MARS 2023

Magn framleidds eldisfisks hefur margfaldast á síðustu árum og var rúmlega 51 þúsund tonn árið 2022 sem er 1.786 tonnum minna en á árinu 2021. Laxeldi er meginuppistaða framleiðslunnar á Íslandi eða 90% af öllu fiskeldi. Eldi á bleikju var 4.931 tonn árið 2022 og eldi á regnbogasilungi var 1.131 tonn.


Tæplega 600 manns störfuðu hjá fiskeldisfyrirtækjum á Íslandi árið 2021 en voru 523 ári áður. Rekstrartekjur hafa tífaldast frá árinu 2010 og voru tæpir 46 milljarðar árið 2021. Áætlaðar tekjur fyrir árið 2022 eru tæpir 56 milljarðar miðað við veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum. Útflutningsverðmæti fiskeldisafurða árið 2022 var 48,8 milljarðar króna en var rúmlega 36 milljarðar króna árið 2021.


Árið 2021 var Noregur stærsti framleiðandi á laxi í Evrópu með yfir eina og hálfa milljón tonna á ári. Í Skotlandi voru framleidd rúm 200 þúsund tonn og í Færeyjum rúm 90 þúsund tonn. Þar á eftir kemur Ísland með 46 þúsund tonn. Laxeldisframleiðsla jókst að meðaltali um 17% í fyrrgreindum löndum. Mest var aukningin þó í Færeyjum og á Íslandi.

Á heimsvísu er Ísland í 37. sæti hvað varðar framleiðslumagn eldisafurða fisks og skelfisks samkvæmt upplýsingum frá Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) fyrir árið 2020. Kína er langafkastamest með um 18 milljón tonna af eldisafurðum árlega en næst koma Indónesía og Víetnam. Noregur er í 4. sæti með um 1,5 milljónir tonna af eldisfiski.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fiskitolur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.