Út er komið fyrsta heftið í nýrri ritröð Hagtíðinda í efnisflokknum Sjávarútvegur og ber það heitið Fiskiskipastólinn í árslok 2003. Í ritinu kemur m.a. fram að alls voru 1.872 fiskiskip á skrá hjá Siglingastofnun og hafði þeim fækkað um 63 frá árinu 2002. Vélskip voru 869 og hafði þeim fækkað um 2, togarar voru 71 og hafði fækkað um 5 en opnir fiskibátar voru 932 og fækkaði þeim um 56.
Útgefin hefti um sjávarútveg í nýrri ritröð Hagtíðinda koma í stað ritsins Útvegs sem Hagstofan hefur gefið út árlega frá 1998. Meðal þess efnis sem gefið verður út er aflaverðmæti, ráðstöfun afla, útflutningur sjávarafurða, innflutt hráefni til fiskvinnslu, fiskeldi og heimsafli. Hægt er að gerast áskrifandi að útgáfum Hagtíðinda um sjávarútveg eða kaupa einstök hefti auk þess sem hægt verður að nálgast efnið á heimasíðu Hagstofunnar án endurgjalds.
Fiskiskipastóllinn í árslok 2003 - útgáfur
Talnaefni