FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 25. FEBRÚAR 2014

Alls voru 1.696 fiskiskip á skrá hjá Siglingastofnun í lok árs 2013 og hafði þeim fjölgað um sex frá árinu áður. Fjöldi vélskipa var alls 783 og samanlögð stærð þeirra 89.478 brúttótonn. Vélskipum fjölgaði um fimm á milli ára en stærð flotans jókst um 203 brúttótonn. Togarar voru alls 51 og fækkaði um fimm frá árinu á undan. Heildarstærð togaraflotans var 60.161 brúttótonn og hafði minnkað um 12.540 brúttótonn frá árinu 2012. Opnir fiskibátar voru 862 og 4.170 brúttótonn að stærð. Opnum fiskibátum fjölgaði um sex milli ára og heildarstærð þeirra jókst um 60 brúttótonn.

Flest fiskiskip voru með skráða heimahöfn á Vestfjörðum í árslok 2013, alls 401 skip, en það eru um 23,6% fiskiskipastólsins. Næst flest, alls 324, höfðu heimahöfn skráða á Vesturlandi, eða 19,1%. Fæst skip höfðu heimahöfn á Suðurlandi, 72 alls, en það samsvarar 4,2% af heildarfjölda fiskiskipa. Opnir bátar voru flestir á Vestfjörðum, 232, og á Vesturlandi 180. Fæstir opnir bátar höfðu heimahöfn á Suðurlandi, alls 17. Vélskip voru einnig flest á Vestfjörðum, alls 163, en fæst á Suðurlandi, 49 skip. Flestir togarar höfðu skráða heimahöfn á höfuðborgarsvæðinu, alls 11, en níu togarar á Norðurlandi eystra. Fæstir togarar voru skráðir á Vesturlandi, alls þrír.

Íslenski fiskiskipastóllinn var rúmlega átta mánuðum eldri að meðaltali í árslok 2013 en í árslok 2012, en meðalaldur var um 25 ár og tveir mánuðir. Meðalaldur vélskipa var tæp 24 ár, togaraflotans tæp 28 ár og opinna fiskibáta rúm 26 ár.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.