Alls voru 1685 fiskiskip á skrá hjá Samgöngustofu í lok árs 2014 og hafði þeim fækkað um ellefu frá árinu áður. Fjöldi vélskipa var alls 773 og samanlögð stærð þerra um 85.653 brúttótonn. Vélskipum fækkaði um tíu á milli ára en stærð flotans minnkaði um 3.825 brúttótonn. Togarar voru alls 49 og fækkaði um tvo frá árinu á undan. Heildarstærð togaraflotans var 57.444 brúttótonn og hafði minnkað um 2.717 frá árslokum 2013. Opnir fiskibátar voru 863 og 4.239 brúttótonn að stærð. Opnum fiskibátum fjölgaði um einn á milli ára en heildarstærðin jókst um 69 brúttótonn.
Flest fiskiskip voru með skráða heimahöfn á Vestfjörðum í árslok 2014, alls 400 skip, en það eru tæp 23,7% fiskiskipaflotans. Næst flest, alls 323 skip höfðu heimahöfn skráða á Vesturlandi eða 19,2%. Fæst skip voru með skráða heimahöfn á Suðurlandi, 72 alls, en það samsvarar 4,2% af heildarfjölda fiskiskipa. Opnir bátar voru flestir á Vestfjörðum, 234, og á Vesturlandi 181. Fæstir opnir bátar höfðu heimahöfn á Suðurlandi, alls 19. Vélskip voru einnig flest á Vestfjörðum, 160, en fæst á Suðurlandi, 45 skip. Flestir togarar höfðu skráða heimahöfn á höfuðborgarsvæðinu, alls 10, en níu togarar á Norðurlandi eystra. Fæstir togarar voru skráðir á Vesturlandi, alls þrír.
Íslenski fiskiskipaflotinn yngdist upp um 20 mánuði að meðaltali á milli árana 2013 og 2014, en meðalaldur fiskiskipa var um 25,8 ár í árslok 2014. Meðalaldur vélskipa var tæp 24 ár, togaraflotans rúm 29 ár og opinna fiskibáta rúm 27 ár.