Hagstofa Íslands gefur nú út hagreikninga landbúnaðarins í annað skipti. Verkefninu var komið á laggirnar með IPA-styrk frá ESB, en nú hafa íslensk stjórnvöld tekið yfir fjármögnun þess. Niðurstöður fyrri ára hafa í einhverjum tilvikum breyst vegna endurbóta á aðferðafræði og aðgengis að nýjum gögnum.
Nú eru jafnframt í fyrsta skipti birtir áætlaðir hagreikningar fyrir nýliðið ár. Rétt er að leggja áherslu á að hér er um að ræða áætlun sem byggist á lokaniðurstöðum ársins 2012 og þeim upplýsingum sem fyrirliggjandi eru um magn- og verðbreytingar árið 2013. Stefnt er að því að lokatölur ársins 2013 liggi fyrir síðla árs 2014.
Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum fyrir árið 2013 jókst heildarframleiðsluvirði greinarinnar um 4,3% á árinu og var 61,5 milljarðar á grunnverði, þ.e. að meðtöldum vörustyrkjum en frátöldum vörusköttum. Aðfanganotkun er talin hafa aukist um 4,7%, í 44,2 milljarða.
Magnbreyting framleiðslu geirans árið 2013 er hverfandi og vöxturinn nær alfarið vegna verðbreytinga. Breytingu á notkun aðfanga má rekja til rúmlega 1% magnminnkunar og um 5,8% hækkunar á verði.
Framleiðsluverðmæti landbúnaðarins árið 2012 er metið 59 milljarðar á grunnverði og er það heildaraukning um 11,1% frá fyrra ári. Þessa aukningu má rekja til 2,7% magnaukningar og 8,2% hækkunar á verði. Framleiðsluverðmæti nytjaplantna, að heimanotuðu fóðri meðtöldu, reyndist 16,9 milljarðar eða 17,7% hærra en fyrra ár. Verðmæti afurða kornræktar jókst um 59,4% frá árinu á undan, fóðurjurta um 17,1%, garðyrkjuafurða um 8,3% og kartaflna um 27,6%. Framleiðsluverðmæti afurða búfjárræktar jókst um 9,1% árið 2012 og er metið á 39,1 milljarð. Veigamestu afurðirnar eru eins og verið hefur mjólk og kindakjöt, þar sem framleiðsluverðmæti jókst um annars vegar 5% og hins vegar 7,5%.
Aðfanganotkun jókst um 13,7%, í 42,2 milljarða. Magnaukningin reyndist 3,9% eða nokkuð meiri en sem nemur aukningu framleiðslunnar. Í samræmi við umfang búfjárræktarinnar í íslenskum landbúnaði er fóðurnotkun veigamesti liður í aðföngunum með upp undir helmings hlut. Líkt og í framleiðsluverðmæti nytjaplantna er hér verðmæti heimaræktaðs fóðurs meðtalið. Aukning aðfanga stafar að miklu leyti af hækkun innflutningsverðs á korni sem hefur bæði áhrif á aðkeypt fóður, sem og á mat verðmætis heimafengins fóðurs.
Afkomuþróun landbúnaðarins 2007-2013 | |||
% br. frá fyrra ári á verði hvers árs. | 2011 | 2012 | 2013 |
Virði afurða nytjaplönturæktar | 9,1 | 17,7 | 8,4 |
Virði afurða búfjárræktar | 13,3 | 9,1 | 2,5 |
Tekjur af landbúnaðarþjónustu | 12,2 | 6,6 | -4,2 |
Tekjur af óaðskiljanlegri aukastarfsemi | 17,8 | 1,8 | 5,5 |
Heildarframleiðsluvirði | 12,3 | 11,1 | 4,3 |
Kostnaður við aðfanganotkun | 10,9 | 13,7 | 4,7 |
Vergt vinnsluvirði | 15,7 | 4,9 | 3,2 |
Afskriftir fastafjármuna | 0,3 | 2,5 | -1,6 |
Hreint vinnsluvirði | 20,7 | 5,5 | 4,5 |
Aðrir framleiðslustyrkir | -69,0 | -8,0 | 3,8 |
Aðrir framleiðsluskattar | … | … | … |
Þáttatekjur | 15,9 | 5,3 | 4,5 |
Launakostnaður | 10,1 | 8,3 | 8,5 |
Rekstrarhagnaður/einyrkjatekjur | 18,9 | 4,0 | 2,5 |
Leiga og önnur leigugjöld af fasteignum sem ber að greiða (jarðaleiga) | -5,7 | 9,9 | 0,0 |
Fjármagnsgjöld | 1,2 | -6,7 | 0,0 |
Fjáreignatekjur | 17,5 | -19,1 | 0,0 |
Talnaefni
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.isDeila
Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.