Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt (verg hlutdeild fjármagns, EBITDA) sem hlutfall af heildartekjum lækkaði milli áranna 2016 og 2017. Í fiskveiðum og -vinnslu lækkaði hlutfallið (án milliviðskipta) úr 25,4% í 21,1%, í fiskveiðum fór hlutfallið úr 24,2% í 18,2% og í fiskvinnslu úr 11,9% í 10,6%.
* Í sjávarútvegi alls er litið framhjá viðskiptum milli veiða og vinnslu með hráefni, og tekjur metnar miðað við markaðsverðmæti.
Hreinn hagnaður (EBT) í sjávarútvegi, samkvæmt árgreiðsluaðferð, nam 6,5% árið 2017 samanborið við 14,4% árið áður. Í fjárhæðum nam hagnaðurinn 11,8 milljörðum króna eftir að gjaldfærð hefur verið árgreiðsla að fjárhæð 26,7 milljarðar. Sé miðað við hefðbundna uppgjörsaðferð er niðurstaðan 6,8% hagnaður árið 2017 eða 12,5 milljarður, samanborið við 24% hagnað árið 2016.
Áhrifaþættir á afkomu í sjávarútvegi
Rekstrarárið 2017 gætti áhrifa verkfalls sjómanna sem hófst í desember 2016 og stóð í tæpar 10 vikur. Verð sjávarafurða á erlendum mörkuðum í íslenskum krónum lækkaði um 6,7% frá fyrra ári og verð á olíu hækkaði að meðaltali um 25% á milli ára. Gengi USD veiktist um 11,6% og gengi EUR um 9,8% á milli ára. Útflutningsverðmæti sjávarútvegs í heild dróst saman um 15,2%, og nam rúmum 197 milljörðum króna á árinu 2017. Verð á útflutningsvörum í sjávarútvegi lækkaði um 12,1% og magn útfluttra sjávarafurða dróst saman um 3,5%. Á árinu 2017 störfuðu um 7.600 manns við sjávarútveg í heild, sem er um 3,9% af vinnuafli á Íslandi. Veiðigjald útgerðarinnar lækkaði úr 6,9 milljörðum króna fiskveiðiárið 2015/2016, í 4,6 milljarða króna fiskveiðiárið 2016/2017.
Afkoma smábáta versnaði árið 2017
Alls voru 837 smábátar að veiðum og öfluðu þeir tæplega 22 þúsunda tonna, að verðmæti rúmlega 4,2 milljarða króna árið 2017. Sem hlutfall af tekjum var EBITDA smábáta 13,3% árið 2017, borið saman við 13,8% árið 2016. Af þessum 837 smábátum var 521 bátur við strandveiðar á árinu. Afli þeirra var um 9.800 tonn og aflaverðmætið tæplega 1,9 milljarðar króna. EBITDA strandveiðanna árið 2017 var 13,9% samanborið við 15,6% árið 2016 og EBITDA annarra báta undir 10 tonnum á almennum veiðum 12,8% samanborið við 11,3% árið 2016.
Eigið fé sjávarútvegs rúmir 276 milljarðar
Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir sjávarútvegsins rúmir 660 milljarðar króna í árslok 2017, heildarskuldir rúmir 384 milljarðar króna (hækkun um 6,9%) og eigið fé tæpir 276 milljarðar króna. Verðmæti heildareigna hækkaði um 6,2% frá 2016 og fjárfestingar í varanlegum eignum hækkuðu um 10%. Eiginfjárhlutfallið var 41,8% en var 42,2% í árslok 2016. Eins og fram kemur á myndinni hér fyrir neðan hefur eigið fé í sjávarútvegi vaxið hratt síðustu ár, eða úr 29 milljörðum króna árið 2010 í 276 milljarða króna árið 2017.
Um útgáfuna
Hagstofa Íslands tekur árlega saman yfirlit um rekstur helstu greina sjávarútvegs. Markmiðið með útgáfunni er að upplýsa stjórnvöld og almenning um afkomu og stöðu sjávarútvegs. Niðurstöður Hagstofunnar eru færðar til heildarstærðar miðað við upplýsingar frá Fiskistofu um tekjur í fiskveiðum og útflutningsverðmæti á sjávarafurðum. Úrvinnsla Hagstofu Íslands á þessum gögnum er með sama hætti og tíðkast hefur um langt árabil og er að mestu leyti reist á uppgjörsaðferðum sem beitt er við gerð þjóðhagsreikninga. Framkvæmd úrtakskönnunar hefur verið breytt og áhersla lögð á að endurskoða og flýta úrvinnslu upplýsinga frá skattayfirvöldum. Eru niðurstöður vegna næstliðins árs því birtar nokkru fyrr en áður hefur verið gert.
Í uppfærðu talnaefni eru birt yfirlit um rekstur ársins 2017 færð upp til heildar ásamt yfirliti um efnahag sjávarútvegsins í heild árin 2011–2017. Einnig er sýnd dreifing vergrar hlutdeildar fjármagns í frystingu og söltun, dreifing afkomu 684 fyrirtækja í úrtaki Hagstofunnar árið 2017 auk dreifingar eiginfjárhlutfalls í sjávarútvegi 2016–2017. Þá er birt yfirlit um strandveiðar sem fyrst voru leyfðar á fiskveiðiárinu 2008/2009. Nú er í fyrsta sinn birt rekstraryfirlit báta >10-30 brúttótonn sem dregið er út úr rekstaryfirliti fyrir báta >10-200 brúttótonn.
Hagstofan fær upplýsingar úr ársreikningum fyrirtækja sem fylgja skattframtölum rekstraraðila en þær nægja ekki þegar aðgreina þarf rekstur veiða og vinnslu í sjávarútvegi. Nauðsynlegt er því að afla ýtarlegri upplýsinga beint frá fyrirtækjunum. Þær niðurstöður sem hér birtast eru því að hluta reistar á reikningum sem fyrirtæki í sjávarútvegi hafa sent Hagstofunni