Útflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2017 var um 197 milljarðar króna sem er 15,2% minna en árið 2016. Flutt voru út tæplega 610 þúsund tonn sem er 30 þúsund tonnum meira en árið áður.
Frystar sjávarafurðir voru 48,9% af útflutningsverðmætinu, ísaðar afurðir voru 23,3% og mjöl/lýsi rúm 14%. Af einstökum tegundum var verðmæti frystra þorskafurða mest eða tæpir 31,8 milljarðar króna og næst var verðmæti ísaðs þorsks um 31,4 milljarðar króna. Mest var flutt út til Evrópulanda, eða sem nemur tæpum 72% af útflutningsverðmæti sjávarafurða.
Verðmæti útflutningsframleiðslu sjávarafurða, sem er samtala útflutnings og birgðabreytinga sjávarafurða, var rúmlega 197 milljarðar árið 2017 sem er 15% samdráttur frá fyrra ári. Á föstu verðlagi dróst útflutningsframleiðsla saman um 12,9% miðað við árið 2016.