Aflaverðmætið 4,2 milljarðar króna og dróst saman um tæpan fjórðung
Í janúar 2004 nam aflaverðmæti íslenskra skipa af öllum miðum um 4,2 milljörðum króna samanborið við tæplega 5,5 milljarða í janúar 2003. Aflaverðmæti hefur því dregist saman um 23,5% á milli ára eða um nærri 1,3 milljarða króna. Verðmæti botnfiskaflans var 3,1 milljarður króna og dróst saman um 240 milljónir króna eða um 7,1%. Verðmæti þorsks var 2 milljarðar króna og dróst saman um 7,4% og verðmæti ýsuaflans nam um 500 milljónum króna og dróst saman um 10,4%. Verðmæti loðnuaflans nam rúmum 600 milljónum króna og dróst saman um rúman milljarð króna en hafa ber í huga að magnið dróst saman um 156.800 tonn á milli ára. Þá var verðmæti skel- og krabbadýraafla einungis 32,9 milljónir króna en var rúmar 130 milljónir króna í janúar 2003 og er munurinn 74,8% eða tæplega 100 milljónir króna.
Verðmæti afla í beinni sölu útgerða til vinnslustöðva í janúar 2004 var 1,9 milljarðar króna samanborið við 3,3 milljarða í janúar 2003 og er það 41,8% samdráttur. Verðmæti sjófrysts afla var 773 milljónir króna en nam 614 milljónum króna í janúar 2003 og er þetta ríflega fjórðungs aukning á milli ára. Verðmæti afla sem seldur var á innlendum fiskmörkuðum til fiskvinnslu innanlands dróst saman um 15,1%, var 785 milljónir króna samanborið við 925 milljónir króna í janúar 2003. Í gámum var fluttur út ferskur fiskur fyrir 522 milljónir króna í janúar 2004 sem er 17,3% aukning frá fyrra ári.
Á Suðurnesjum var unnið úr afla að verðmæti 895 milljónir króna í janúar 2004 sem er 12,3% minna verðmæti en í janúar 2003. Mestur samdráttur milli ára varð á Austurlandi, 626 milljónir króna eða 53%. Verðmæti afla íslenskra skipa sem unninn var erlendis jókst um 16,9%, úr rúmum 511 milljónum í janúar 2003 í nærri 600 milljónir í janúar 2004.
Hagstofan hefur endurskoðað bráðabirgðatölur fiskafla ársins 2003. Heildarafli íslenskra skipa var 1.979.545 tonn og aflaverðmætið 67,3 milljarðar króna. Þar af var þorskafli 206.405 tonn að verðmæti 26,1 milljarður króna, ýsuafli 60.330 tonn að verðmæti 5,9 milljarðar króna og loðnuaflinn 675.625 tonn að verðmæti 4,9 milljarðar króna.
Upplýsingar um afla og aflaverðmæti janúarmánaðar 2004 ásamt endurskoðuðum tölum fyrir árið 2003 er að finna í talnaefni.
¹ Þessar upplýsingar byggja á vigtar- og ráðstöfunarskýrslum sem Fiskistofa safnar frá fiskkaupendum. Fyrir árið 2003 er stuðst við bráðabirgðatölur en endanlegar tölur liggja að baki talna fyrir árið 2002. Athuganir benda til þess að endanlegar tölur séu að hámarki 1-2% hærri en bráðabirgðatölur þegar á heildina er litið en fyrir örfáar fisktegundir getur munurinn þó orðið meiri. |