Verðmæti útflutts óunnins afla eykst á milli ára
Á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2004 var aflaverðmæti íslenskra skipa af öllum miðum 63 milljarðar króna samanborið við 62,9 milljarða króna á sama tímabili 2003. Aflaverðmæti hefur því aukist um 0,3% á milli ára eða um 184 milljónir króna, á verðlagi hvors árs fyrir sig. Verðmæti botnfiskaflans var 43,8 milljarðar króna og er það aukning um 1,7 milljarð króna (4,1%) á milli ára. Verðmæti þorsks hefur á þessu tímabili aukist um 1,9 milljarð króna (8,1%) og verðmæti ýsuaflans um 1,6 milljarð (29,4%) en karfaafli hefur dregist saman um 1,1 milljarð króna (-24,1%) og úthafskarfaaflinn hefur dregist saman um tæpar 600 milljónir króna (-17,8%). Verðmæti flatfisktegunda var 181 milljón meira árið 2004 (3,3%) en á sama tímabili 2003 en verðmæti uppsjávartegunda hefur dregist saman um rúmar 500 milljónir króna (-4,6%) og munar þar mestu um aflaverðmæti loðnu en einnig varð töluverður samdráttur í aflaverðmæti kolmunna á milli ára. Á móti kemur að aflaverðmæti síldar hefur aukist á milli ára um 18,9%, var 3,3 milljarðar króna 2003 en 3,9 milljarðar 2004. Verðmæti skel- og krabbadýraaflans dróst einnig saman um 1,2 milljarð króna (-32,8%) og er það að stærstum hluta vegna rækju.
Mikil aukning hefur verið í verðmæti þess afla sem keyptur er á innlendum fiskmörkuðum og er fluttur óunninn út á erlenda markaði í gámum. Á tímabilinu jókst verðmæti í þessum löndunarflokki um 71,4% eða úr tæpum 600 milljónum árið 2003 í rúman 1 milljarð króna árið 2004. Einnig hefur mikil hlutfallsleg aukning orðið í útflutningi á ferskum fiski í gámum (51,1%) og nam verðmæti þess afla 5,8 milljörðum króna 2004. Verðmæti afla sem landað var erlendis í bræðslu nam 98,9 milljónum króna 2004 samanborið við 441 milljón króna 2003 og er það samdráttur upp á 342 milljónir króna (-77,6%). Verðmæti afla í beinni sölu útgerða til vinnslustöðva var 27,3 milljarðar króna samanborið við 28,9 milljarða króna á sama tímabili 2003 og dróst því saman um 1,6 milljarð króna á milli ára (-5,6%). Verðmæti afla sem seldur var á fiskmörkuðum til fiskvinnslu innanlands var 8,7 milljarðar króna og dróst saman um 170 milljónir króna (-1,9%). Verðmæti sjófrysts afla var 19,3 milljarðar króna samanborið við 18,8 milljarða króna á árinu 2003 og er það aukning um hálfan milljarð (2,7%). Verðmæti sjófrysts afla sem landað var innanlands til endurvinnslu nam 359 milljónum króna 2004 og dróst saman um 338 milljónir frá fyrra ári (-48,5%).
Á Suðurnesjum var unnið úr afla að verðmæti 10,6 milljarða króna og er það aukning um 565 milljónir á milli ára eða 5,7%. Á höfuðborgarsvæðinu var unnið úr afla að verðmæti 9,8 milljarða króna og er það aukning um rúmar 400 milljónir frá fyrra ári. Á Vesturlandi varð samdráttur í verðmæti afla til vinnslu um 13%, var 4,7 milljarðar króna 2003 en 4,1 milljarður króna 2004. Verðmæti afla til vinnslu erlendis jókst hins vegar um 29,4% milli ára fór úr 4,7 milljörðum króna 2003 í 6,1 milljarð króna 2004.
Upplýsingar um afla og aflaverðmæti¹ janúar-nóvember 2004 er að finna í talnaefni.
¹ Þessar upplýsingar byggja á vigtar- og ráðstöfunarskýrslum sem Fiskistofa safnar frá fiskkaupendum. Fyrir árið 2004 er stuðst við bráðabirgðatölur en endanlegar tölur liggja að baki talna fyrir árið 2003. Athuganir benda til þess að endanlegar tölur séu að hámarki 1-2% hærri en bráðabirgðatölur þegar á heildina er litið en fyrir örfáar fisktegundir getur munurinn þó orðið meiri. |