FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 25. JANÚAR 2005

Aflaverðmætið 56,3 milljarðar króna og dregst saman um 2%
Á fyrstu tíu mánuðum ársins 2004 var aflaverðmæti íslenskra skipa af öllum miðum 56,3 milljarðar króna samanborið við 57,5 milljarða króna á sama tímabili 2003. Aflaverðmæti hefur því dregist saman um 2% á milli ára eða rúmlega 1,2 milljarða króna, á verðlagi hvors árs fyrir sig. Verðmæti botnfiskaflans var 38,9 milljarðar króna og er það aukning um 760  milljónir króna (2%) á milli ára. Verðmæti þorsks hefur á þessu tímabili aukist um 1,5 milljarða króna (6,7%) og verðmæti ýsuaflans um 1,3 milljarða (28,6%) en karfaafli hefur dregist saman um 1,1 milljarð króna (-26,9%) og úthafskarfaaflinn hefur dregist saman um tæpar 600 milljónir króna (-17,8%). Verðmæti flatfisktegunda er 150 milljónum meira í ár (2,9%) en á sama tímabili 2003 en verðmæti uppsjávartegunda hefur dregist saman um rúmar 900 milljónir króna (-8,9%) og munar þar mestu um aflaverðmæti loðnu. Verðmæti skel- og krabbadýraaflans hefur einnig dregist saman um 1,1 milljarð króna (-32,4%) og er það að stærstum hluta vegna rækju. 
       Á tímabilinu hefur mikil hlutfallsleg aukning orðið í útflutningi á ferskum fiski í gámum (53,8%) og þannig nam verðmæti þessa afla 5,2 milljörðum króna. Einnig hefur orðið mikil aukning í verðmæti þess afla sem keyptur er á innlendum fiskmörkuðum en er fluttur óunninn á erlenda markaði í gámum (65%). Í krónum talið hefur verðmæti afla í þessum löndunarflokkum vaxið um 2,1 milljarð frá árinu 2003. Verðmæti afla í beinni sölu útgerða til vinnslustöðva var 25 milljarðar króna samanborið við 26,8 milljarða króna á sama tímabili 2003 og er það samdráttur um 1,8 milljarða króna (-6,6%). Verðmæti afla sem seldur var á fiskmörkuðum til fiskvinnslu innanlands var 7,9 milljarðar króna og dróst saman um tæpar 250 milljónir króna (-3%). Verðmæti sjófrysts afla var 16,4 milljarðar króna samanborið við 16,8 milljarða króna á árinu 2003 og er það samdráttur um tæpan hálfan milljarð króna (2,9%).
       Á Suðurnesjum var unnið úr afla að verðmæti 9,5 milljarða króna og er það aukning um 460 milljónir króna á milli ára eða 5%. Annars staðar á landinu var samdráttur á milli ára. Mestur var samdráttur á Austurlandi en þar var unnið úr afla að verðmæti 7 milljarða króna sem er 1 milljarði króna minna (-13,5%) en á sama tímabili á árinu 2003. 
       Upplýsingar um afla og aflaverðmæti¹ janúar-október 2004 er að finna í talnaefni.

¹ Þessar upplýsingar byggja á vigtar- og ráðstöfunarskýrslum sem Fiskistofa safnar frá fiskkaupendum. Fyrir árið 2004 er stuðst við bráðabirgðatölur en endanlegar tölur liggja að baki talna fyrir árið 2003. Athuganir benda til þess að endanlegar tölur séu að hámarki 1-2% hærri en bráðabirgðatölur þegar á heildina er litið en fyrir örfáar fisktegundir getur munurinn þó orðið meiri.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.