Landsframleiðsla jókst að raungildi um 3,5% á árinu 2013. Hagvöxtur hefur ekki verið meiri frá árinu 2007 og hefur landsframleiðsla ekki verið hærri að raungildi frá árinu 2008. Utanríkisverslun dregur hagvöxtinn áfram því þjóðarútgjöld á árinu 2013 drógust lítillega saman eða um 0,3%.

Einkaneysla og samneysla jukust hvor um sig um 0,8% en fjárfesting dróst saman um 2,2%. Útflutningur jókst um 6,9% og á sama tíma jókst innflutningur um 0,4% þannig að verulegur afgangur varð af vöru- og þjónustuviðskiptum á liðnu ári, eða 156 milljarðar króna.

Halli á launa- og fjáreignatekjum frá útlöndum minnkaði verulega á síðasta ári samkvæmt tölum Seðlabankans. Það ásamt afgangi af vöru- og þjónustu-viðskiptum leiddi til jákvæðs viðskiptajafnaðar í fyrsta sinn frá árinu 2002. Hann nam rúmum 121 milljarði króna, 6,5% af landsframleiðslu á árinu 2013 og hefur afgangurinn sem hlutfall af landsframleiðslu aldrei verið meiri.

Viðskiptakjör versnuðu um 1,1% á árinu 2013 en hinn mikli viðsnúningur á viðskiptajöfnuði milli ára varð til þess að þjóðartekjur jukust mun meira en sem nam vexti landsframleiðslu eða um 11,2%.

Innleiðing nýs þjóðhagsreikningastaðals, ESA2010 og aðrar endurbætur sem gerðar eru á þjóðhagsreikningum nú, aftur til 1997, leiða til hækkunar á fjárhæð landsframleiðslu. Meðalhækkun á ári á tímabilinu er 3,6% en árið 2012 var viðbótin 4,4%. Áhrifin á hagvöxt eru mun minni eða að meðaltali 0,3% á ári. Árið 2012 dróst hagvöxtur saman um 0,3%.

Í Hagtíðindum um þjóðhagsreikninga sem gefin hafa verið út, er gerð ýtarleg grein fyrir niðurstöðum og áhrifum af þeim breytingum sem gerðar hafa verið. Hagstofan mun gera nánari grein fyrir áhrifum breytinganna með samanburði við önnur EES ríki þegar þær niðurstöður liggja fyrir.

Landsframleiðslan 2013 endurskoðun - Hagtíðindi

Talnaefni