FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 17. APRÍL 2024

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu ársins 2023 nam 8,8% samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum ferðaþjónustureikninga og hefur aldrei verið stærri. Til samanburðar nam hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu 7,5% árið 2022 og að jafnaði 8,2% á tímabilinu 2016 til 2019, fyrir kórónuveirufaraldurinn.

Vinnustundir í ferðaþjónustu 9,7% heildarvinnustunda 2023
Áætlað er að 31 milljón vinnustunda eða 9,7% heildarvinnustunda hér á landi á árinu 2023 hafi tengst beint framleiðslu á vöru eða þjónustu til endanlegra nota fyrir ferðamenn. Til samanburðar var þetta hlutfall 9,4% árið 2022 og að jafnaði 10,6% á árunum 2016-2019. Vinnustundir við ferðaþjónustu jukust um 7,4% á árinu 2023 samanborið við fyrra ár.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum störfuðu tæplega 23 þúsund einstaklingar við ferðaþjónustu hér á landi árið 2023 sem er fjölgun um 8% frá fyrra ári og ekki langt frá fjöldanum sem var þegar mest lét en árin 2018 og 2019 störfuðu rúmlega 23 þúsund einstaklingar við ferðaþjónustu.

Heildarneysla ferðamanna aldrei verið meiri
Heildarneysla ferðamanna, innlendra og erlendra, hérlendis nam rúmlega 845 milljörðum króna árið 2023, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum, og hefur aldrei verið meiri. Til samanburðar nam heildarneysla ferðamanna tæplega 676 milljörðum króna árið 2022. Hafa ber í huga við samanburð á milli ára að upphæðir eru á verðlagi hvers árs og gætir því áhrifa verðbólgu.

Gistiþjónusta vegur þyngst í útgjöldum erlendra ferðamanna
Útgjöld erlendra ferðamanna námu tæplega 503 milljörðum króna árið 2023 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum samanborið við 399 milljarða króna árið 2022. Gistiþjónusta vegur þyngst en tæplega fjórðungur útgjalda erlendra ferðamanna á árinu 2023 var vegna hennar. Útgjöld innlendra ferðamanna námu rúmlega 323 milljörðum króna árið 2023 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum sem er 38,2% heildarútgjalda ferðamanna.

Um gögnin
Ferðaþjónustureikningar (e. tourism satellite accounts) eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar hérlendis. Með ferðaþjónustu er átt við þjónustu við bæði innlenda og erlenda ferðamenn á Íslandi.

Endurskoðanir
Rétt er að árétta að áður birtar niðurstöður ferðaþjónustureikninga hafa verið endurskoðaðar samhliða birtingu ferðaþjónustureikninga fyrir árið 2023. Þar sem ferðaþjónustureikningar byggja á niðurstöðum ráðstöfunaruppgjörs og framleiðsluuppgjörs ná endurskoðanir sem gerðar eru í þeim uppgjörum einnig til ferðaþjónustureikninga.

Sundurliðun á útgjöldum innlendra ferðamanna á Íslandi eftir atvinnugreinum er aðeins birt fram til ársins 2019 þar sem ekki eru tiltæk gögn fyrir alla liði sundurliðunar eftir þann tíma. Aðferðafræði sundurliðunar á útgjöldum innlendra ferðamanna á Íslandi eftir atvinnugreinum er til endurskoðunar.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.