Ferðaþjónusta hélt áfram að gegna lykilhlutverki í hagkerfinu árið 2024 og nam 8,7% af vergri landsframleiðslu, samanborið við 8,2% árið 2023, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum ferðaþjónustureikninga. Gistiþjónusta var enn og aftur í fararbroddi í greininni og nam um 2,6% af vergri landsframleiðslu. Þrátt fyrir aukningu í hlut ferðaþjónustunnar í vergri landsframleiðslu hefur framlag greinarinnar til hagvaxtar dregist saman frá fyrra ári og stendur nú í -0,4% (sjá frekari umfjöllun hér að neðan).
Nærri ein af hverjum tíu vinnustundum árið 2024 tengdist ferðaþjónustu
Áætlað er að um 31,8 milljón vinnustunda árið 2024 megi rekja með beinum hætti til ferðaþjónustu, sem jafngildir um 9,9% heildarvinnustunda hér á landi það árið. Til samanburðar var þetta hlutfall um 10,1% árið 2023. Gistiþjónusta vó sem áður þyngst í fjölda vinnustunda og var hlutur hennar í heildarvinnustundum um 3,2%.
Heildarneysla ferðamanna jókst um 6,4%
Árið 2024 nam heildarneysla ferðamanna á Íslandi, bæði erlendra og innlendra, tæpum 870 milljörðum króna og jókst um 6,4% frá fyrra ári. Útgjöld ferðamanna, það er neysla að frádreginni reiknaðri húsaleigu og útgjöldum vinnuveitenda, námu rúmlega 840 milljörðum króna, sem er aukning um 7,9% frá fyrra ári. Þegar útgjöld ferðamanna eru hins vegar mæld á föstu verðlagi jukust þau aðeins um 2,8% og höfðu verðlagshækkanir því veruleg áhrif á vöxt útgjalda á verðlagi hvers árs.
Útgjöld erlendra ferðamanna á föstu verðlagi dragast saman
Útgjöld erlendra ferðamanna námu tæplega 519 milljörðum króna árið 2024 og jukust því um 4,2% á milli ára. Þyngst vó gistiþjónusta eða um 26% og var 9,5% vöxtur í þeim útgjaldalið hjá erlendum ferðamönnum frá fyrra ári. Aðrir veigamiklir liðir á árinu voru veitingaþjónusta og farþegaflutningar með flugi sem vógu samanlagt um 29% en drógust saman um 1,4% og 3,6% frá fyrra ári.
Á föstu verðlagi drógust útgjöld erlendra ferðamanna saman frá fyrra ári um sem nemur 0,5%. Gistiþjónusta jókst um 3,5% á föstu verðlagi og var framlag hennar til ársbreytingarinnar í útgjöldum erlendra ferðamanna á föstu verðlagi 0,9%. Aftur á móti drógust aðrir veigamiklir liðir í útgjöldum erlendra ferðamanna saman á milli ára. Þannig dróst til að mynda veitingaþjónusta saman um 5,6% á föstu verðlagi og var framlag hennar til ársbreytingarinnar í útgjöldum erlendra ferðamanna neikvætt um sem nemur 0,7%.
Útgjöld innlendra ferðamanna námu rúmlega 321 milljarði króna árið 2024 og jukust því um 14,5% frá fyrra ári. Þyngst vógu gistiþjónusta og ferðaskrifstofur, sem telja samanlagt rúmlega helming allra útgjalda innlendra ferðamanna, sem jukust um 14,7% og 11,5%. Á föstu verðlagi jukust útgjöld innlendra ferðamanna um 8,6%.
Framlag ferðaþjónustu til hagvaxtar var -0,4%
Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum ferðaþjónustureikninga dróst vinnsluvirði ferðaþjónustunnar saman um 1% árið 2024 samanborið við fyrra ár. Á föstu verðlagi var samdrátturinn heldur meiri eða um 6,3%. Samdráttinn í vinnsluvirði á föstu verðlagi má að verulegu leyti rekja til samdráttar í gistiþjónustu og farþegaflutningum með flugi en samanlagt framlag þessara liða til ársbreytingarinnar í vinnsluvirði ferðaþjónustunnar var neikvætt um 4%.
Árið 2024 var framlag ferðaþjónustunnar til hagvaxtar neikvætt um 0,4%, sem er tæpur helmingur þess samdráttar sem þjóðhagsreikningar benda til að hafi átt sér stað það árið. Hefur framlag ferðaþjónustunnar til hagvaxtar því dregist saman frá árinu 2023 þegar það var 1%. Þá dróst framleiðni vinnuafls í ferðaþjónustunni saman um rúm 5% frá fyrra ári eftir kraftmikinn vöxt í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Vert er að athuga að þessar niðurstöður eru háðar bráðabirgðamati framleiðsluuppgjörs þjóðhagsreikninga á vinnsluvirði atvinnugreina árið 2024 og geta niðurstöðurnar því breyst við næstu birtingu framleiðsluuppgjörsins.
Niðurstöður á föstu verðlagi
Birt hefur verið ný tafla sem inniheldur helstu niðurstöður ferðaþjónustureikninga á föstu verðlagi. Þar má finna útgjöld ferðamanna og vinnsluvirði ferðaþjónustunnar á föstu verðlagi (miðað við árið 2020), framleiðni vinnuafls í ferðaþjónustunni og framlag ferðaþjónustunnar til hagvaxtar.
Breytingar á aðferðafræði
Frá síðustu útgáfu ferðaþjónustureikninga hafa verið gerðar breytingar á þeirri aðferðafræði sem liggur til grundvallar mats á útgjöldum innlendra ferðamanna á Íslandi. Breytingarnar ná til mats á útgjöldum innlendra ferðamanna í gisti- og veitingaþjónustu. Áhrif breytinganna eru veruleg sé litið á þessa tvo undirliði en áhrif á heildarútgjöld innlendra ferðamanna eru almennt ekki mikil (undantekningar eru árin 2018 og 2019 þar sem áhrifin eru 10% og 11% til lækkunar). Áhrif á útgjöld vegna gistiþjónusta eru ávallt til hækkunar en áhrif á útgjöld vegna veitingaþjónustu ávallt til lækkunar.
Um gögnin
Ferðaþjónustureikningar (e. tourism satellite accounts) eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar hérlendis. Með ferðaþjónustu er átt við þjónustu við bæði innlenda og erlenda ferðamenn á Íslandi.
Endurskoðanir
Rétt er að árétta að áður birtar niðurstöður ferðaþjónustureikninga hafa verið endurskoðaðar samhliða birtingu ferðaþjónustureikninga fyrir árið 2024. Þar sem ferðaþjónustureikningar byggja á niðurstöðum ráðstöfunaruppgjörs og framleiðsluuppgjörs ná endurskoðanir sem gerðar eru í þeim uppgjörum einnig til ferðaþjónustureikninga.