FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 10. APRÍL 2019

Hagstofan, í samstarfi við Seðlabanka Íslands, vinnur nú að endurbótum á aðferðafræði fjármálareikninga. Yfirlit yfir helstu breytingar má finna neðar í fréttinni. Að þessu sinni ná þessar breytingar einungis til ársins 2017 og því er ekki fullt samræmi milli ára. Áætlað er að endurskoðun fyrri ára, ásamt lengingu tímaraða aftur til ársins 1997, verði lokið á næsta ári.

Áætlað er að heildarfjáreignir innlendra aðila hafi numið 26.543 milljarða króna við árslok 2017, eða rúmum 1.014% af vergri landsframleiðslu (VLF). Heildarskuldbindingar námu 26.426 ma. kr., eða 1.010% af VLF.

Heildarfjáreignir og fjárskuldbindingar innlendra efnahagsgeira, milljarðar króna

Fjáreignir heimilanna stóðu í rúmlega 6.909 milljörðum kr. og fjárskuldir í 2.014 milljörðum kr. í lok árs 2017, samsvarandi 264% og 77% af VLF.

Heildarfjáreignir fyrirtækja, annarra en fjármálafyrirtækja, námu um 4.458 milljörðum kr. samkvæmt uppfærðum tölum, en fjárskuldir stóðu í 7.656 milljörðum kr.

Fjáreignir fjármálafyrirtækja námu um 13.423 milljörðum kr. í lok árs 2017 en fjárskuldbindingar voru 14.465 milljarðar kr.

Í lok árs 2017 námu fjáreignir hins opinbera 1.656 milljörðum kr., eða sem nemur 63,3% af VLF og skuldir 2.283 milljörðum kr., eða 87% af VLF.

Fjármálaeignir erlendra aðila stóðu í 3.297 milljörðum kr. (126% af VLF) í árslok 2017 og skuldbindingar í 3.406 milljörðum kr. (130% af VLF).

Helstu aðferðafræðilegu breytingar samanstanda af eftirfarandi atriðum:

  • Fjálmálagerningar í flokknum verðbréf önnur en hlutabréf (F.3) voru uppfærðir í samræmi við betri gögn. Helst ber að nefna að verðbréf önnur en hlutabréf lækka skuldamegin hjá fyrirtækjum öðrum en fjármálafyrirtækjum vegna breyttrar aðferðafræði og jafnframt er hluti þeirra nú flokkaður sem lán.
  • Mótaðilagögn eru notuð í auknum mæli til að meta eigendaskiptingu á bæði verðbréfum öðrum en hlutabréfum (F.3) og lánum (F.4) milli innlendra og erlendra aðila. Sú breyting veldur því að verðbréfaeign erlendra aðila önnur en hlutabréfaeign er metin lægri en samkvæmt fyrri aðferðafræði.
  • Viðbótarlífeyrissparnaður var færður úr sjóðum og innistæðum (F.2) yfir í lífeyrisskuldbindingar (F.6). Hefur sú breyting aðeins áhrif á samsetningu fjáreigna heimila en ekki fjáreignir heimila alls. Breytingin hefur einnig áhrif á samsetningu skulda fjármálafyrirtækja en ekki heildarskuldir þeirra.
  • Orlofsreikningar heimila voru endurmetnir með betri gögnum til hækkunnar eigna heimila.
  • Eignir og skuldir í flokknum hlutabréf (F.5) voru uppfærðar að hluta til við markaðsvirði hlutabréfamarkaðar. Einnig voru mótaðilagögn fjármálafyrirtækja notuð í meiri mæli en áður. Hefur það töluverð áhrif til hækkunar á fjáreignum heimila. Bróðurparturinn af hlutabréfum er ekki skráður á markaði og því er flokkurinn metinn samkvæmt bókfærðu eigin fé ársreikninga og skattagögnum.
  • Fyrirtæki önnur en fjármálafyrirtæki (S.11), Önnur fjármálafyrirtæki (S.125) og Bundin fjármálafyrirtæki (S.127) voru endurskoðuð sérstaklega innbyrðis.

Næsta birting fjármálareikninga er í september 2019

Gerðar hafa verið breytingar á fyrirkomulagi reglulegrar miðlunar fjármálareikninga. Í stað Hagtíðinda verða niðurstöður framvegis kynntar með útgáfu efnismeiri frétta.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.