FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 18. SEPTEMBER 2020

Heildarfjáreignir innlendra aðila námu 27.881 milljarði króna við árslok 2019 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum fjármálareikninga eða sem nemur tæpum 939% af vergri landsframleiðslu (VLF). Heildarfjárskuldbindingar námu 27.363 milljarða eða 921% af VLF. Hrein fjáreign innlendra aðila var því jákvæð um 518 milljarða króna í lok árs 2019 en var jákvæð um 106 milljarða króna árið áður.

Fjáreignir heimilanna stóðu í rúmlega 7.962 milljörðum króna og fjárskuldir í 2.294 milljörðum í lok árs 2019, samsvarandi 268% og 77% af VLF. Heildarfjáreignir jukust um rúmlega 10% á meðan skuldir hækkuðu um rúmlega 6% á milli 2018 og 2019. Heildarfjáreignir fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja námu um 3.216 milljörðum króna og lækkuðu um 5,7% frá árinu 2018, en fjárskuldir stóðu í 6.903 milljörðum og lækkuðu um 1,8% á milli ára.

Fjáreignir fjármálafyrirtækja námu um 14.926 milljörðum króna í lok árs 2019 og jukust um 13% á milli ára, en fjárskuldbindingar voru 15.755 milljarðar og hækkuðu um 11% á milli ára.

Í lok árs 2019 námu fjáreignir hins opinbera 1.682 milljörðum króna, eða sem nemur 56,6% af VLF, og skuldir 2.402 milljörðum eða 80,9% af VLF.

Fjármálaeignir erlendra aðila stóðu í 3.625 milljörðum króna (122% af VLF) í árslok 2019 og skuldbindingar í 4.132 milljörðum (139% af VLF). Fjáreignir hækkuðu um 0,8% og skuldbindingar um tæp 12% á milli áranna 2018 og 2019.

Fyrirhuguð endurskoðun tímaraða og breytingar á viðmiðunarári fasts verðlags
Endurskoðun tímaraða sem fyrirhuguð var í tengslum við birtingu talnaefnis fyrir 2. ársfjórðung hefur verið frestað tímabundið og er gert ráð fyrir birtingu niðurstaðna samhliða útgáfu talnaefnis fyrir 3. ársfjórðung þann 30. nóvember nk. Við endurskoðun verður sérstök áhersla lögð á flokkun hageininga (sector classification) í samræmi við evrópska þjóðhagsreikningastaðalinn ESA 2010 og eru nú meðal annars nokkur álitaefni til skoðunar er snúa að afmörkun hins opinbera (general government sector) í íslenskum þjóðhagsreikningum. Í öllum tilvikum er um að ræða endurflokkun stofnana sem hingað til hafa verið flokkaðar utan hins opinbera.

Við endurflokkun stofnana hins opinbera hefur í veigameiri álitaefnum verið leitað eftir formlegu áliti Eurostat. Nú þegar liggja fyrir álit varðandi flokkun Íbúðalánasjóðs og þeirra stofnana og sjóða sem tóku við hlutverki hans með lagabreytingum um síðustu áramót sem og flokkun Lánasjóðs íslenskra námsmanna (nú Menntasjóður námsmanna) og meðferð íslenskra námslána í þjóðhagsreikningum. Í báðum tilvikum er niðurstaðan sú að endurflokka eigi stofnanirnar og þær eigi að teljast sem hluti af hinu opinbera. Álitsgerðirnar hafa verið birtar opinberlega á vefsvæði Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Þá stendur einnig yfir vinna við endurskoðun aðferða við staðvirðingu samneyslu. Samhliða heildarendurskoðun tímaraða verður skipt um viðmiðunarár fasts verðlags og tölur birtar á föstu verðlagi 2015 í stað 2005 eins og verið hefur frá árinu 2011.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.