Heildarfjáreignir innlendra aðila námu tæplega 35.022 milljörðum króna við árslok 2021 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum fjármálareikninga eða sem nemur 1.077% af vergri landsframleiðslu (VLF). Heildarskuldbindingar námu um 33.618 milljörðum króna eða 1.034% af VLF. Hrein fjáreign innlendra aðila var því jákvæð um 1.404 milljarða króna í lok árs 2021 en var jákvæð um 978,7 milljarða árið áður.

Fjáreignir heimilanna stóðu í tæplega 9.974 milljörðum króna og fjárskuldir í um 2.779 milljörðum í lok árs 2021, samsvarandi 307% og 85% af VLF. Hreinar fjáreignir heimila jukust á milli ára, úr tæpum 6.168 milljörðum króna árið 2020 í um 7.195 milljarða árið 2021.

Heildarfjáreignir fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja námu rúmlega 4.654 milljörðum króna en fjárskuldir stóðu í 9.119 milljörðum.

Fjáreignir fjármálafyrirtækja námu um 17.777 milljörðum króna í lok árs 2021 en fjárskuldbindingar voru 18.097 milljarðar.

Í lok árs 2021 námu fjáreignir hins opinbera 2.497 milljörðum króna, eða sem nemur tæplega 77% af VLF, og skuldir 3.608 milljörðum eða 111% af VLF.

Fjármálaeignir erlendra aðila með innlenda mótaðila stóðu í 3.822 milljörðum króna, eða 118% af VLF í árslok 2021, og skuldbindingar í 5.210 milljörðum eða 160% af VLF.

Næsta birting fjármálareikninga er í september 2023.

Talnaefni