Heildarfjáreignir innlendra aðila námu rúmlega 40.478 milljörðum króna við árslok 2023 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum fjármálareikninga eða sem nemur um 937% af vergri landsframleiðslu (VLF). Heildarskuldbindingar námu um 38.810 milljörðum króna eða 898% af VLF. Hrein fjáreign innlendra aðila var því jákvæð um 1.667 milljarða króna í lok árs 2023 en var jákvæð um 984 milljarða árið áður.
Fjáreignir heimilanna stóðu í tæplega 11.141 milljarði króna og fjárskuldir í um 3.186 milljörðum í lok árs 2023, samsvarandi um 258% og 74% af VLF. Hreinar fjáreignir heimila jukust á milli ára úr tæpum 7.196 milljörðum króna árið 2022 í um 7.955 milljarða árið 2023.
Heildarfjáreignir fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja námu tæplega 7.545 milljörðum króna í árslok 2023 en fjárskuldir stóðu í 12.450 milljörðum.
Fjáreignir fjármálafyrirtækja námu um 19.063 milljörðum króna í lok árs 2023 en fjárskuldbindingar voru 19.008 milljarðar.
Í lok árs 2023 námu fjáreignir hins opinbera 2.590 milljörðum króna, eða sem nemur tæplega 60% af VLF, og skuldir tæplega 4.143 milljörðum eða 96% af VLF.
Fjáreignir erlendra aðila með innlenda mótaðila stóðu í rúmlega 4.217 milljörðum króna, eða tæplega 98% af VLF í árslok 2023, og skuldbindingar í tæpum 5.866 milljörðum eða 136% af VLF.