FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 08. APRÍL 2016

Hreinar fjáreignir heimila jukust um 17% milli ára og námu 2.638 ma. kr. í árslok 2014 samkvæmt nýuppfærðum tölum Hagstofu Íslands. Það jafngildir 131,7% af vergri landsframleiðslu. Fjáreignir heimila námu 4.562 ma kr. í árslok 2014, en stærstur hluti þeirra, eða 76%, eru lífeyrisréttindi. Virði hlutabréfa í eigu heimila jókst um 24,7% á milli áranna 2013 og 2014 og nam tæpum 64 ma. kr. í árslok 2014. Fjárskuldbindingar heimila voru 1.924 ma. kr. á sama tíma.

Fjáreignir fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja jukust um 5% að nafnvirði á milli ára og stóðu í 4.777 ma. kr. í árslok 2014. Á sama tíma námu fjárskuldbindingar 7.862 ma. kr. sem er 4,7% aukning á milli ára. Hreinar fjáreignir fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja voru neikvæðar um 3.454 ma. kr., eða 172% af VLF, í lok árs 2014.

Hreinar fjáreignir fjármálafyrirtækja voru neikvæðar um 3.573 ma. kr. í árslok 2014 séu fjármálafyrirtæki í slitameðferð meðtalin. Hreinar fjáreignir fjármálafyrirtækja í slitameðferð voru neikvæðar um 3.614 ma. kr. á sama tíma. Sé litið framhjá fjármálafyrirtækjum í slitameðferð voru hreinar fjáreignir fjármálafyrirtækja jákvæðar um tæpan 41 ma. kr. í lok árs 2014.

Hreinar fjáreignir hins opinbera og undirgeira þess voru neikvæðar um 968 ma. kr. í árslok 2014 og höfðu skuldir umfram eignir aukist um 2,9% frá fyrra ári.

Heildarfjáreignir innlendra efnahagsgeira námu 24.331 ma. kr. í árslok 2014 en fjárskuldbindingar voru 29.642 ma. kr. á sama tíma. Fjáreignir erlendra aðila á Íslandi námu 9.520 ma. kr. en fjárskuldbindingar við innlenda aðila voru 4.200 ma. kr. í lok árs 2014. Hreinar fjáreignir erlendra aðila á Íslandi voru 5.320 ma. kr. í árslok 2014 og höfðu rýrnað um 8% frá fyrra ári.

Hagstofa Íslands gefur nú út endurskoðaða fjármálareikninga fyrir Ísland. Gögnin ná til stofnstærða fjáreigna og fjárskuldbindinga allra efnahagsgeira íslenska hagkerfisins og eru flokkuð eftir þátttakendum á fjármálamarkaði (efnahagsgeirum) og fjármálagerningum samkvæmt alþjóðlegum þjóðhagsreikningastöðlum sem auðveldar samanburð á milli landa. Tímaraðirnar ná yfir árin 2003–2014. Þess ber að geta að vinnsla fjármálareikninga er þróunarverkefni hjá Hagstofu Íslands. Vinnslan er talsvert flókin sérstaklega vegna tilvistar fjármálafyrirtækja í slitameðferð. Þegar reikningar þeirra fyrirtækja hverfa úr fjármálareikningum landsins, í árslok 2015, minnkar flækjustig við vinnslu gagnanna og túlkun niðurstaðna.

Næsta birting fjármálareikninga er í september 2016. Nánari upplýsingar um skilgreiningar og aðferðafræði, sjá lýsigögn.

Talnaefni (sjá Fjármálareikningar)

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.