Hagstofan birtir nú niðurstöður tekjuskiptingaruppgjörs fyrir alla fimm megingeira íslenska hagkerfisins ásamt útlöndum yfir árin 2012 og 2013. Auk þess hafa niðurstöður fyrir árin 2000 til 2011 verið endurskoðaðar.
Byggt er á niðurstöðum ráðstöfunar- og framleiðsluuppgjörs þjóðhagsreikninga og lögð áhersla á að skrá verðmætastraumana milli megingeira hagkerfisins.
Meginendurskoðun frá áður birtum tölum kemur fram í geiraskiptingu framleiðslu-reikningsins fyrir árin 2008-2011. Sá reikningur er sem fyrr unninn út frá upplýsingum úr framleiðsluuppgjöri Hagstofunnar og geiraskiptri skattagrunnskrá fyrir hvert ár. Sú skrá hefur verið endurbætt frá fyrri birtingu. Aðrar breytingar eru vegna endurskoðaðra talna í ráðstöfunar- og framleiðsluuppgjöri þjóðhagsreikninga sem birtar voru á vef Hagstofunnar í september síðastliðnum.
Meginniðurstöður innlendra geira úr tekjuskiptingaruppgjörinu árið 2013 | |||||
S. 11 | S. 12 | S. 13 | S. 14 | S. 15 | |
Verðlag hvers árs, milljónir króna | Fyrirtæki önnur | ||||
en fjármála- | Fjármála- | Hið | Félaga- | ||
stofnanir | stofnanir | opinbera | Heimili | samtök | |
Vinnsluvirði | 1.037.225 | 123.088 | 294.954 | 181.205 | 36.582 |
Vergur rekstrarafgangur | 407.338 | 54.332 | 38.274 | 136.086 | 8.300 |
Vergar þjóðartekjur | 294.467 | 163.462 | 253.182 | 1.132.310 | 8.317 |
Vergar ráðstöfunartekjur | 257.615 | 186.993 | 510.137 | 867.629 | 13.202 |
Leiðréttar vergar ráðstöfunartekjur | 257.615 | 186.993 | 219.893 | 1.194.773 | -23.699 |
Vergur sparnaður | 257.615 | 80.372 | 51.939 | 24.153 | -23.699 |
Afskrift fjármunaeignar | 178.992 | 5.661 | 53.941 | 63.765 | 6.004 |
Hreinn sparnaður | 78.623 | 74.710 | -2.002 | -39.612 | -29.703 |
Niðurstöður tekjuskiptingaruppgjörsins eru vergur og hreinn sparnaður hvers geira fyrir sig. Vergur sparnaður innlendu geiranna jókst um rúma 179 milljarða kr. frá árinu 2012 til 2013. Þar af var aukning í vergum sparnaði fyrirtækja annarra en fjármálastofnanna um 189 milljarða króna, um 29 ma.kr. hjá hinu opinbera og tæpa 12 ma.kr. hjá heimilum. Hins vegar var samdráttur hjá fjármálastofnunum um tæpa 49 ma.kr og um rúma 2 ma.kr hjá félagasamtökum á verðlagi hvers árs. Hreinn sparnaður, sem er vergur sparnaður að frádregnum afskriftum fjármunaeignar, jókst um tæpa 176 milljarða kr. frá 2012 til 2013. Hjá fyrirtækjum öðrum en fjármálastofnunum var sú aukning rúmir 190 milljarðar króna, um 27 ma.kr. hjá hinu opinbera og 9 ma.kr. hjá heimilum. Samdráttur í hreinum sparnaði hjá fjármálastofnunum nam rúmum 48 milljörðum króna og 1,5 mö.kr hjá félagasamtökum.
Vergur sparnaður heimilageirans mælist að meðaltali tæp 5% af vergum ráðstöfunartekjum yfir tímabilið 2000-2013. Vergur sparnaður þess geira reiknast sem vergar ráðstöfunartekjur eftir að leiðrétt hefur verið fyrir breytingum á hreinni eign heimila í lífeyrissjóðum en að frádreginni einkaneyslu heimila. Árið 2001 var vergur sparnaður heimila neikvæður um -1,9% en fór hæst í 17% af ráðstöfunartekjum árið 2007. Árið 2013 var sparnaður heimila jákvæður um 2,8% af ráðstöfunartekjum og um 1,5% árið 2012.
Tölur um laun og launatengd gjöld eru hér fengnar úr framleiðsluuppgjöri Hagstofunnar og byggja að mestu á launakostnaði eins og fyrirtækin gjaldfæra hann. Niðurstöður um ráðstöfunartekjur heimilageirans sem Hagstofan hefur birt árlega frá árinu 2007 byggja á skattframtölum einstaklinga. Nokkurt misræmi er á milli þessara mælinga sem stafar að einhverju leyti af mismun á því hvað telst með launatengdum gjöldum.
Nánari lýsingu á tekjuskiptingaruppgjörinu má finna hér.