Komið hefur í ljós villa í birtum tölum um fjármunamyndun á 2. ársfjórðungi 2019. Leiðrétting hefur átt sér stað og allar tölur hafa verið uppfærðar.

Leiðréttingin á rætur að rekja til mistaka sem urðu til þess að fjármunamyndun tímabilsins reyndist vanmetin um sem nemur 9,1 milljarði króna á verðlagi ársins. Áhrifin koma fram í tveimur undirliðum fjármunamyndunar, fjármunamyndun hins opinbera og í atvinnuvegafjárfestingu, nánar tiltekið í fjármunamyndun í skipum og flugvélum. Eftir leiðréttingu mælist 16,6% vöxtur í fjármunamyndun hins opinbera og 26,5% samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu. Samdráttur í heildarfjármunamyndun mælist 9,2%, borið saman við 14,2% samkvæmt áður birtum niðurstöðum. Eftir leiðréttingu mælist vöxtur landsframleiðslunnar 2,7% að raungildi á 2. ársfjórðungi, samanborið við 1,4% samkvæmt áður birtum niðurstöðum. Landsframleiðslan á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 jókst um 0,9% borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2018 en samkvæmt áður birtum niðurstöðum mældist breyting landsframleiðslunnar 0,3% á tímabilinu.

Talnaefni á vef Hagstofunnar hefur verið uppfært í samræmi við þetta.

Hagstofu Íslands þykir miður að mistök hafi orðið og reynir eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.

Hagvöxtur 2,7% á 2. ársfjórðungi 2019
Landsframleiðslan á 2. ársfjórðungi 2019 jókst að raungildi um 2,7% frá sama ársfjórðungi fyrra árs. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 0,2%. Vöxtur einkaneyslu mældist 2,2% og samneyslu 3,1% en fjármunamyndun dróst saman um 9,2%.

Samdráttur mældist í bæði inn- og útflutningi. Útflutningur dróst saman um 6,9% en samdráttur í innflutningi mældist nokkru meiri, eða 12,4%. Vöru- og þjónustujöfnuður var jákvæður um 9,4 milljarða króna á tímabilinu, en vöxtur landsframleiðslunnar á 2. ársfjórðungi skýrist aðallega af jákvæðum áhrifum utanríkisviðskipta.

Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst að raungildi um 3,8% milli 1. ársfjórðungs 2019 og 2. ársfjórðungs 2019.

Landsframleiðsla á 2. ársfjórðungi 2019
  Verðlag ársins millj. kr. Magnbreyting frá sama tímabili fyrra árs, % Árstíðarleiðrétt magnbreyting frá fyrri ársfjórðungi,%
2.ársfj. 2.ársfj. 1.-2. ársfj 2.ársfj.
Einkaneysla 390.1442,22,20,9
Samneysla 180.1103,13,00,9
Fjármunamyndun 169.404-9,2-13,826,9
Birgðabreytingar 2.1280,6
Þjóðarútgjöld alls 741.786 0,2 -2,47,6
Útflutningur vöru og þjónustu 329.154 -6,9 -2,8-6,9
Innflutningur vöru og þjónustu -319.754 -12,4 -10,6-0,3
Verg landsframleiðsla 751.186 2,7 0,93,8

Endurskoðun landsframleiðslu á 1. ársfjórðungi
Samhliða útgáfu talnaefnis fyrir 2. ársfjórðung er birt endurskoðað mat á þróun landsframleiðslunnar á 1. ársfjórðungi. Samkvæmt endurskoðun dróst landsframleiðslan saman að raungildi um 0,9% frá sama ársfjórðungi fyrra árs, borið saman við 1,7% vöxt samkvæmt áður birtum niðurstöðum. Við gerð þjóðhagsreikninga fyrir 1. ársfjórðung reyndust gögn innihalda upplýsingar um umfang og framvindu byggingarframkvæmda sem náðu yfir lengra tímabil en samsvarar viðmiðunartímabili þjóðhagsreikninga. Hefur það nú verið leiðrétt á grundvelli nýrra gagna. Samkvæmt endurskoðun mældist vöxtur íbúðafjárfestingar á 1. ársfjórðungi 22,2% borið saman við 58,4% samkvæmt áður útgefnum tölum.

mynd

Landsframleiðslan jókst um 0,9% fyrstu sex mánuði ársins
Landsframleiðslan á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 jókst um 0,9% að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2018. Á sama tíma drógust þjóðarútgjöld saman um 2,4%. Einkaneysla jókst að raungildi um 2,2%, samneysla um 3% en fjármunamyndun dróst saman um 13,8%. Útflutningur dróst saman um 2,8% en innflutningur dróst saman um 10,6%.

Samdráttur í heildarfjármunamyndun
Þrátt fyrir umtalsverðan vöxt í íbúðafjárfestingu á 2. Ársfjórðungi, dróst heildarfjármunamyndun nokkuð saman, eða um 9,2% borið saman við sama tímabil fyrra árs. Samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu mældist 26,5%, vöxtur í fjárfestingu hins opinbera 16,6% en 40,8% aukning mældist í íbúðafjárfestingu á tímabilinu. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 hefur íbúðafjárfesting aukist um 31,2% að raungildi, borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2018.

Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum
Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var 9,4 milljarðar króna 2. ársfjórðungi 2019, borið saman við neikvæðan 0,5 milljarða króna jöfnuð á sama tíma árið 2018, á gengi hvors árs. Þar sem innflutningur dróst meira saman en sem nam samdrætti í útflutningi, er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar jákvætt. Vöruskiptajöfnuður var neikvæður um 42,7 milljarða króna á 2. ársfjórðungi 2019. Vöruútflutningur nam 163,1 milljarði króna og vöruinnflutningur nam 205,8 milljörðum króna á sama tímabili. Þjónustujöfnuðurinn var jákvæður um 52,1 milljarð króna á 2. ársfjórðungi 2019. Á tímabilinu nam útflutningur á þjónustu 166,1 milljarði króna og innflutningur á þjónustu 113,9 milljörðum króna.

Aukning í birgðum
Á 2. ársfjórðungi jókst heildarverðmæti birgða um 2,1 milljarð króna á verðlagi ársins borið saman við síðasta ársfjórðung en birgðir drógust nokkuð saman á 1. ársfjórðungi, eða um 8 milljarða króna á verðlagi ársins.

Hagvöxtur 4,8% árið 2018
Samhliða birtingu þjóðhagsreikninga á 2. ársfjórðungi 2019, birtir Hagstofan nú fyrstu bráðabirgðatölur fyrir árið 2018 en áætluð landsframleiðsla út frá ársfjórðungsreikningum var birt 1. mars síðastliðinn*. Samkvæmt bráðabirgðatölum nam landsframleiðsla ársins 2018 2.812 milljörðum króna, en það er 199 milljörðum hærri fjárhæð en árið áður (7,6%). Að raungildi jókst landsframleiðslan um 4,8% samanborið við 4,4% vöxt árið áður. Frá árinu 2010 hefur landsframleiðslan vaxið ár frá ári, í heild um 34% að raungildi á tímabilinu. Að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar, sem nam 2,7%, jókst landsframleiðsla á mann að raungildi um 2,1% árið 2018. Frá árinu 2010 hefur landsframleiðsla á mann aukist um 20,9% að raungildi, og er hún meiri en áður hefur mælst.

Vegna tafa á gagnaskilum og breytinga sem orðið hafa á grunngögnum í tengslum við innleiðingu laga um opinber fjármál eru þjóðhagsreikningar fyrir árið 2018 birtir með fyrirvara um óvissu í uppgjöri fjármála hins opinbera.

Fyrirhuguð endurskoðun tímaraða og breytingar á viðmiðunarári fasts verðlags
Samhliða birtingu bráðabirgðatalna fyrir árið 2019, sem fyrirhuguð er í lok ágúst 2020, er áætlað að birta heildarendurskoðun tímaraða þjóðhagsreikninga hér á landi. Er endurskoðunin í samræmi við samþykkta stefnu og leiðbeiningar Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) um reglulegar heildarendurskoðanir þjóðhagsreikninga og samræmda tímasetningu þeirra. Samkvæmt henni munu reglulegar meiriháttar endurskoðanir (benchmark revisions) fara fram á fimm ára fresti frá og með árinu 2024 (breytilegt er hvort aðildarríki hins evrópska hagskýrslusamstarfs innleiddu breytingarnar samhliða útgáfu í ár eða muni gera það á næsta ári), og framvegis á ártali sem endar á 4 eða 9. Nánar verður gerð grein fyrir fyrirhuguðum breytingum við birtingu talna í mars 2020. Samhliða heildarendurskoðun tímaraða verður skipt um viðmiðunarár fasts verðlags og tölur birtar á föstu verðlagi 2015 í stað 2005 eins og verið hefur frá árinu 2011.

*Um tveimur mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur birtir Hagstofa Íslands áætlaða landsframleiðslu fjórða ársfjórðungs næstliðins árs og um leið fyrstu áætlun (e. provisional) um landsframleiðslu ársins í heild. Um er að ræða samtölu ársfjórðungslegra mælinga samkvæmt ráðstöfunaraðferð. Fyrstu niðurstöður sem skilgreindar eru sem bráðabirgðatölur (e. preliminary estimates) eru birtar um 8 mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur. Niðurstöður þjóðhagsreikninga eru skilgreindar sem bráðabirgðatölur þar til um 26 mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur en geta engu að síður tekið breytingum eftir því sem tilefni gefst.

Talnaefni
Landsframleiðsla
Fjármunamyndun og fjármunaeign
Framleiðsluuppgjör
Einka- og samneysla
Vinnumagn og framleiðni