FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 28. OKTÓBER 2014

Hagstofan gefur nú út í fyrsta sinn heildstætt kerfi fjármálareikninga fyrir Ísland fyrir árin 2003–2013. Heildarfjáreignir innlendra efnahagsgeira námu 1.289% af landsframleiðslu í árslok 2013 en á sama tíma námu fjárskuldbindingar 1.694% af landsframleiðslu. Af heildarfjárskuldbindingum voru hæstar fjárskuldbindingar fjármálafyrirtækja í slitameðferð, sem námu 9.705 milljörðum króna í árslok 2013 en þessar skuldir eru að mestu bundnar við erlenda kröfuhafa. Fjáreignir erlendra aðila innan íslenska hagkerfisins námu 12.929 milljörðum króna í árslok 2013.

Fjáreignir og -skuldbindingar fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja jukust hratt 2003–2007, en hafa dregist mikið saman og náð ákveðnu jafnvægi á undanförnum árum. Mikilvægur hluti fjármögnunar íslenskra fyrirtækja liggur í hlutafé og öðru eigin fé, en í árslok 2013 var hlutafé og eigið fé fyrirtækja rúm 31% af heildarfjárskuldbindingum þeirra.

Fjármálareikningar fjalla sérstaklega um fjármálafyrirtæki og undirgeira þeirra. Heildarfjáreignir fjármálafyrirtækja voru fjórtánföld landsframleiðsla þegar hámarki var náð árið 2007. Í árslok 2013 var þetta hlutfall komið niður í tæplega áttfalda landsframleiðslu. Miðað við önnur Evrópuríki er Ísland enn með eitt umfangsmesta fjármálakerfið jafnvel þótt umskipti hafi orðið hér á síðustu árum. Sé litið framhjá fjárskuldbindingum fjármálastofnana í slitameðferð, sem námu rúmlega fimmfaldri landsframleiðslu í árslok 2013, kemur skýrt fram hversu mikil áhrif þau hafa á heildarmyndina.

Fjármálafyrirtæki í slitameðferð eru birt sem sér undirgeiri í íslensku fjármálareikningunum en ljóst er að umfang þeirra í íslenska fjármálakerfinu er umtalsvert og verður þar til uppgjör á þrotabúum föllnu bankanna liggur fyrir.

Mikil eigna- og skuldaaukning varð hjá eignarhaldsfélögum í uppsveiflunni 2003–2007. Glögglega má sjá þann mikla eignabruna sem varð hjá félögunum í kjölfar fjármálakreppunnar. Sú mynd sem blasir við í lok tímabilsins bendir til þess að jafnvægi sé að myndast hjá þessum efnahagsgeira. Heildarfjáreignir eignarhaldsfélaga námu 141% af landsframleiðslu í árslok 2013.

Heildarfjáreignir lífeyrissjóða námu 2.702 milljörðum króna í árslok 2013 sem samsvarar 144% af landsframleiðslu, en fjármálareikningarnir gefa góða heildarsýn á það hvernig breytingar hafa orðið á eignasafni lífeyrissjóðanna.

Fjáreignir heimila og félagasamtaka stóðu í 4.226 mö. kr. í árslok 2013 en heildar-fjárskuldbindingar þeirra voru 1.745 ma. kr. á sama tíma. Af fjáreignum heimilanna telja lífeyrisréttindi hæst eða 3.188 ma. kr. í árslok 2013. Hafa ber í huga að fastafjármunir, eins og fasteignir eru ekki meðtaldir í reikningunum, en samspil fjáreigna og annarra fjármuna gefa heildarsýn á eiginfjárstöðu heimilanna.

Nálgast má fjármálareikninga aftur til ársins 2003 á vefsvæði Hagstofunnar, bæði stofn og flæðistærðir sundurliðaðar á efnahagsgeira og fjármálagerninga.

Næsta birting fjármálareikninga er í mars 2015. Upplýsingar um aðferðafræði og hugtök, sjá lýsigögn.

Fjármálareikningar 2003-2013 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.