Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu ársins 2022 er áætlaður 6,1% samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum ferðaþjónustureikninga samanborið við 3,9% árið á undan. Er hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu því orðinn áþekkur því sem hann var árið 2015 þegar hann mældist 6,4%.
Erlendum gistinóttum fjölgaði um 127%
Helstu hagvísar benda til aukinna umsvifa í ferðaþjónustu á árinu 2022 samanborið við árið 2021. Gistinætur á öllum tegundum skráðra gististaða voru um 8,8 milljónir árið 2022 samanborið við rúmar fimm milljónir árið 2021, sem samsvarar aukningu upp á 77%. Erlendar gistinætur voru tæpar sjö milljónir árið 2022 og hefur fjölgað um rúmlega 127% á milli ára. Komur erlendra farþega hingað til lands um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 1,7 milljónir árið 2022 sem er aukning um 147% frá árinu 2021.
Um gögnin
Ferðaþjónustureikningar (e. tourism satellite accounts) eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu. Með ferðaþjónustu er átt við þjónustu við bæði innlenda og erlenda ferðamenn hér á landi. Útgáfa ferðaþjónustureikninga, með ítarlegri niðurstöðum, er fyrirhuguð í júní næstkomandi.