Hreinar fjáreignir heimila og félagasamtaka jukust um 11,8% milli ára og voru 2.119 ma. kr. í árslok 2012 sem jafngildir 124,7% af vergri landsframleiðslu. Fjáreignir þeirra námu 3.795 mö. kr. í árslok 2012, en stærstu fjáreignir heimila eru lífeyrisréttindi. Virði hlutabréfaeignar heimila og félagasamtaka jókst um 17,4% á milli áranna 2011 og 2012 og nam 148 mö. kr. í árslok 2012. Hlutafjáreign sem hluti af heildarfjáreignum þeirra var 3,9% en svo hátt hefur hlutfallið ekki verið frá árinu 2007. Fjárskuldbindingar heimila og félagasamtaka voru 1.676 ma. kr. á sama tíma.


 

Fjáreignir fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja jukust um 9,4% að nafnvirði á milli ára og stóðu í 6.342 mö. kr. í árslok 2012. Á sama tíma lækkuðu fjárskuldbindingar þeirra um 1,9% og námu 8.211 mö. kr. Hreinar fjáreignir fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja voru neikvæðar um 1.869 ma. kr. í lok árs 2012.

Hreinar fjáreignir fjármálafyrirtækja voru neikvæðar um 7.491 ma. kr. í árslok 2012 séu fjármálafyrirtæki í slitameðferð meðtalin. Hreinar fjáreignir fjármálafyrirtækja í slitameðferð voru neikvæðar um 7.743 ma. kr. á sama tíma. Hreinar fjáreignir hins opinbera og undirgeira þess voru neikvæðar um 949 ma. kr. í árslok 2012 og höfðu skuldir umfram eignir aukist um 8,5% frá fyrra ári.

Heildarfjáreignir innlendra efnahagsgeira námu 22.600 mö. kr. í árslok 2012 en fjárskuldbindingar voru 30.790 ma. kr. á sama tíma.  Fjáreignir erlendra aðila á Íslandi námu 13.096 mö. kr. en fjárskuldbindingar við innlenda aðila voru 4.891 ma. kr. í árslok 2012. Hreinar fjáreignir erlendra aðila á Íslandi voru í árslok 2012 8.205 ma. kr. og höfðu rýrnað um 11,6% frá fyrra ári.

Hagstofa Íslands gefur nú út endurskoðaða fjármálareikninga fyrir Ísland. Gögnin ná til stofnstærða fjáreigna og fjárskuldbindinga allra efnahagsgeira íslenska hagkerfisins og eru flokkuð eftir þátttakendum á fjármálamarkaði (efnahagsgeirum) og fjármálagerningum samkvæmt alþjóðlegum þjóðhagsreikningastöðlum sem auðveldar samanburð á milli landa.Tímaraðirnar ná yfir árin 2003–2012. Stefnt er að því að innleiða nýjan þjóðhagsreikningastaðal í september nk. Nýi staðallinn mun hafa nokkur áhrif á núverandi kerfi fjármálareikninga, en stefnt er á að birta flæðistærðir (e. flows) samhliða nýjum staðli.

Fjármálareikninga má nota við spár og greiningar á íslenska hagkerfinu en þeir sýna heildstæða mynd af þróun fjáreigna og -skuldbindinga þess.

Næsta birting fjármálareikninga er í september 2014

Fjármálareikningar – nánari upplýsingar um skilgreiningar og aðferðafræði, sjá lýsigögn.

Fjármálareikningar: Fjáreignir og skuldir 2003-2012 - Hagtíðindi

Talnaefni