FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 09. SEPTEMBER 2016

Landsframleiðsla jókst að raungildi um 4,2% á árinu 2015 samkvæmt endurmati á niðurstöðum þjóðhagsreikninga, samanborið við 1,9% vöxt árið 2014 og 4,4% árið 2013. Neysla og fjárfesting drógu hagvöxtinn áfram árið 2015 en þjóðarútgjöld jukust um 6,0%.

Einkaneysla jókst um 4,3%, samneysla um 1,0% og fjárfesting um 18,3%.  Útflutningur jókst um 9,2% og innflutningur um 13,5%. Þrátt fyrir verulegan afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum á liðnu ári, eða  166,6 milljarða króna, dró utanríkisverslun úr hagvexti.

Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum ásamt lægri halla á launa- og fjáreignatekjum, samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands, leiddi til jákvæðs viðskiptajöfnuðar á árinu 2015. Hann nam tæplega 148 milljörðum króna án rekstrarframlaga, eða sem nemur 6,7% af landsframleiðslu á árinu. Til samanburðar var viðskiptajöfnuður jákvæður um rúmlega 92 milljarða árið 2014 á verðlagi þess árs, eða sem nemur 4,6% af landsframleiðslu ársins.

Viðskiptakjaraáhrif, sem hlutfall af landsframleiðslu fyrra árs, voru jákvæð um 3,9% á árinu 2015. Það ásamt jákvæðum viðskiptajöfnuði varð til þess að þjóðartekjur jukust meira en nam vexti landsframleiðslu eða um 9,0% samanborið við 3,4% aukningu árið áður.

Endurskoðun á áður birtum niðurstöðum hefur umtalsverð áhrif, mest árið 2009, þar sem að samdráttur einkaneyslunnar eykst um 4,2 prósentustig frá fyrri niðurstöðum, úr 9,2% í 13,4%. Samkvæmt áður birtum niðurstöðum dróst landsframleiðsla saman um 4,7% árið 2009 en samkvæmt endurskoðuðum tölum var samdrátturinn töluvert meiri eða 6,6%.

Landsframleiðslan 2015, endurskoðun — Hagtíðindi
Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.